Þegar ég leit yfir kosningaloforð flokkanna fyrir nýliðnar Alþingiskosningar vöknaði mér um augun.

Allir lýstu þeir áhuga sínum á að rétta öldruðum og öryrkjum hjálparhönd, vinna gegn fátækt - sem væri svartur blettur á þjóðinni - og bæta velferðarkerfið. Stuðningur skyldi útvegaður þeim sem eiga við geðræn vandamál að stríða.

Menntun og menningu yrði stutt vandlega við. Til að fá allt þetta og meira til, þyrftum við ekki annað en kjósa - rétt.

 

 

 

Þökk sé Almættinu hugsaði ég. Augu stjórnmálamanna hafa opnast - þeir hafa séð ljósið. Auðvitað vissum við þetta kallaði á útgjöld, en það var tæpast vandamál eins vel og þeir höfðu haldið á spilunum undanfarin ár. Tekjur höfðu aukist, nýr fiskistofn hafði tekið sér bólfestu á miðunum við landið og fjöldi ferðamanna hafði margfaldast og þar með tekjur af þeim. Seðlabankinn var að springa af uppsöfnuðum gjaldeyri. Greinilega var nóg til af peningum. Okkur sem er annt um að allir landsmenn búi við velferð og öryggi - og það á vonandi við um okkur öll - höfðum enga ástæðu til að ætla að stjórnmálamennirnir meintu ekki það sem þeir sögðu, og að fjármunir til verksins væru til.

 

 

Við rásmarkið

 

Eftir nokkra daga fáum við væntanlega ríkisstjórn og þingmeirihluti skýrist. Sama er hvaða flokka við fáum í valdastólana því að í ofanefndum mannúðar- og velferðarmálum eru þeir sammála.

Ef hinn nýji forseti okkar - og velkominn sé hann til starfa - þarf að skipa utanþingsstjórn, væntanlega sérfræðing í hvert ráðuneyti, þá eiga þeir væntanlega vísa aðstoð forystumanna allra flokka. Þeir geta td. lagt fram loforðin, upplýsingar um hvað þeir töldu forgangsmál - og svo auðvitað bent á hvernig átti að fjármagna framkvæmdirnar.

 

 

Launastefnan

 

Slæmt var að nýliðnu Alþingi gafst ekki tími til afþakka þann blauta sjóvettling sem kjararáð hálaunaðra ráðamanna sló framan í alþýðu landsins áður en þingi var slitið. Það hefði verið reisn yfir því.

 

Þetta eitt er tilefni til að kalla Alþingi saman

 

Mitt ráð er að kjararáð verði leyst frá störfum og ráðamenn, sem fengu flestir tugi prósenta launahækkun, afþakki hana strax - áður en einhverji aðrir gera það fyrir þá.,

 

Baldur Ágústsson
Höf. er fv. forstj., flugumferðarstjóri og forsetaframbjóðandi

baldur@landsmenn.is - www.landsmenn.is