Enn rennur hann upp, þjóðhátíðardagurinn 17. júní. Við höldum í skrúðgöngu með börnin, fánum er veifað og blöðrur eru keyptar. Það er mikið gaman með pabba og mömmu.

Börnin skilja kannske ekki um hvað þessi hátíðahöld snúast - og við gerðum vel í því að útskýra að við fögnum frelsi og öryggi. Það er meira en margar þjóðir geta. Þetta er kjörinn dagur til að útskýra hvað við eigum raunverulega gott.

 

Hugsum, munum og höldum fast í frelsið.

Við - fullorðna fólkið - ættum líka að velta málinu fyrir okkur. Við vitum að við njótum frelsis, en gerum við okkur ljóst hvílíkur reginmunur er á lífi okkar og lífi þjóða sem búa við stríðsástand, skort á vatni og matvælum - og veit aldrei hvenær næsta þjóð eða ættbálkur birtist með alvæpni til að ræna því litla sem við eigum ásamt sæmd okkar, lífi - og börnum í þrældóm.

Við Íslendingar gerðum vel í því að eiga alvarlega stund í fjölskyldu og vinahópi og gera okkur ljóst hvernig við gætum lent í því sama. Kannske koma menn með byssur en etv. er líklegra að menn á ferðalögum hafi skjöl og penna meðferðis-  og peninga. Að þeir freisti okkar til að selja landið, gögn þess og gæði líkt og hinn hvíti maður keypti land af Indjánum Ameríku fyrir verðlausar glerkúlur.

Það eru ekki mörg ár síðan litlu munaði að við gengjum í sömu gildru.

Hér voru við stjórnvöld fólk sem einskis sveifst í því að láta þjóð sína gangast undir ok ESB og margreyndi að hengja um háls okkar "Icesave-kröfurnar" sem við hvorki skulduðum né hefðum nokkurn tíman haft efni á að greiða. Þetta landráðafólk hugsaði um eiginn hag og laug - ekki aðeins að þjóðinni heldur líka Alþingi.

 

Tvennar kosningar

Á þessu ári eru tvennar kosningar; Alþingiskosningar í haust og forsetakosningar eftir viku. Höfum hugfast að enn er hér landráðafólk sem dreymir um að selja sjálfstæði okkar í hendur ESB. Þau meira að segja undirbjuggu að það yrði fljótlegt og einfalt. Ígrundum vandlega hverjum við gefum atkvæði okkar. Það ræður framtíð lands og þjóðar. Það ræður því hverju við skilum til barna okkar og barnabarna. Spyrjum okkur; eiga þau annað en það besta skilið eftir að okkar vakt lýkur - og við kveðjum ?

 

Baldur Ágústsson

höf. er fv. flugumferðarstjóri, forstjóri og forsetaframbjóðandi.

 

baldur@landsmenn.is

www.landsmenn.is