Baldur Ágústsson skrifar:

 

Nú þegar Ólafur Ragnar hefur fyrir nokkru hætt við að hætta og Davíð stigið fram og vill á Bessastaði, má búast við átökum og áróðri. Hætt er við að við eigum eftir að sjá leðjuslag eins og á sumarhátíðum Akureyrar. Fjölmiðlafrumvarpið sem Davíð útbjó 2004 stöðvaði Ólafur með því að synja undirskrift skv. hinni frægu 26. grein. Davíð var skiljanlega ekki hrifinn og Alþingi dró lögin til baka sem stjórnarskráin býður nú reyndar ekki uppá. Þjóðin fékk því ekki tækifæri til að setja lögin í gildi því miður.

Tilgangur laganna var að koma í veg fyrir að óeðlilega margir fjölmiðlar færu í eignarhald fárra - eða eins - eigenda sem gætu samnýtt þá alla til að mynda skoðun þjóðarinnar með áróðri og "fréttum" úr mörgum áttum, sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum og samfélaginu. Allt til að hygla orðu-prýddum útrásar mönnum - vinum forseta Íslands í þessu tilfelli.

Þá fór undirritaður - óþekktur - fram hið fyrra sinni og fékk ca. 13000 atkvæði þrátt fyrir óvenju dræma kjörsókn.

 

Reynsla og rányrkja

Um leið og Ólafur hafði verið kosinn forseti 1996 var skrifstofa forsetans flutt úr stjórnarráðsbyggingunni í sérkeypt hús við Sóleyjar götu. Fróðar tungur 

sögðu Davíð hafa hlutast til um þetta því hann þyldi Ólaf ekki nálægt sér.

Fleiri atvik, svipað spunnin, komu svo fram; boð eða ekki boð í afmæli heimastjórnar okkar var td. eitt. Nú tala þessir menn báðir um erfiða tíma og þörfina fyrir frambjóðendur, eins og sig, reynsluríka úr stjórnmálunum.

Ég ætla að mótmæla þessu og horfi þá á stöðu þjóðfélagsins og framgöngu reynsluríkra stjórnmálamanna og kvenna: Eins og þessir - og alls ekki bara þeir, því ég er ekki að alhæfa, hafa hagað sér í áratugi: Er þetta reynsla sem okkur vantar. Fólk á fullum launum hjá okkur sem lofar og svíkur, sólundar fé okkar í gæluverkefni, bregst hinum efnaminni svo grimmilega að þúsundir búa við eða undir fátækramörkum.Þeir einkavæddu bankana og Póst & Síma sem malaði gull í ríkissjóð. Þeir eru í rólegheitum að einkavæða heilsugæsluna og selja sameignir okkar; þar á meðal húseignir sem það leigir svo aftur - heilsuverndarstöðin- þó enn sé það bundið dýrum leigusamningi hjá þriðja aðila - til tuttugu og fimm ára!

 

Kaupir dýra ráðgjöf, allt frá ráðgjöf skipaverkfræðings um ferjukaup til margra binda bankahruns-skýrslu. Bankarnir kreista enn fé undan blóðugum nöglum fólks sem þegar hefur farið illa út úr hruninu. Ef eitthvað er herða þeir tökin og hækka vaxtamuninn.

Ferjan sigldi beint heim í kjördæmi þáverandi fjármálaráðherra, í endurbyggingu, sem mun hafa kostað svipað og splunkuný ferja. Samt hafði skýrsla verkfræðingsins kveðið á um að kaupin borguðu sig aðeins yrði hún gerð upp í austur Evrópu þar sem skipasmíðastöðvar vinna á langt um lægri töxtum.  - en til Hafnarfjarðar skildi ferjan, líklega skv. sérfræðiáliti ráðherrans, en hann er jú hámenntaður - dýralæknir. Össur gaf honum meðmælabréf sem tryggði honum vinnu hjá SÞ í Róm enda var skýrslan um þátt hans í hruninu ekki komin úr prentsmiðju.

 

.

Við verðum að geta treyst forsetanum.


Þegar td. meirihluti Alþingis er jafn ósvífinn og hann var undir Jóhönnustjórninni er forsetinn  síðasta varnarlína okkar.

Við þurfum ekki fólk sem alla ævina hefur flotið á milli skóla fyrirtækja og stofnana og ákveðið launin sín sjálfir. - Sama hvað það heitir.

Okkur vantar fólk sem skilur fátækt, atvinnuleysi, skort, vonleysi, íbúðarmissi og sjúkdóma.  Fólk sem hefur þurft að standa á eigin fótum - bera ábyrgð á sér sjálft. Fólk sem elskar land sitt og þjóð - og frelsi hennar og sjálfstæði - og daðrar ekki við annað.

Og, eftir allt þetta, hefur hugsjónir og kjark til að standa og falla með þeim. Fólk sem vinnur vel og er ekki á eilífu "utkik" eftir atkvæðum fyrir næstu kosningar - sem það er meira en tilbúið að láta okkur, þjóðina, borga.

 

Reykjavík 8.5.2017

 

 

Baldur Ágústsson

Höf. er fyrrv. forstjóri.

flugumferðarstjóri og forsetaframbj. 2004

og forsetaframbjóðandi nú, 2016

www.landsmenn.is

 

Mbl. 12. maí, 2016