Eftir Baldur Ágústsson: "Ef litið er um öxl og reynt að læra af hruninu 2008, þá kemur í ljós að þau fyrirtæki sem fengu langmest fellt niður af lánum voru einmitt bygginga- og fasteignafélög."

 

Mikið hefur verið talað um að þörf sé fyrir ódýrar leiguíbúðir, fyrst og fremst fyrir ungt fólk sem er að hefja búskap, en einnig fyrir einstaklinga og eldri hjón sem búa ein því börnin eru flogin úr hreiðrinu og hjónin sitja eftir í alltof stórri íbúð eða einbýlishúsi.

Svar borgaryfirvalda virðist vera að taka dýrar lóðir, þ.ám. hluta af flugbraut, og úthluta þeim til byggingafélaga til að byggja á leiguíbúðir fyrir efnaminna fólk. Þetta er nú öll samstaðan með alþýðunni.

Ef litið er um öxl og reynt að læra af hruninu 2008, þá kemur í ljós að þau fyrirtæki sem fengu langmest fellt niður af lánum voru einmitt bygginga- og fasteignafélög. Beint eða óbeint lenti þetta tap á almenningi.

 

Lífeyrissjóðirnir

Þeir lífeyrissjóðir okkar sem þáverandi ríkisstjórn leyfði okkur náðarsamlegast að taka út – enda tóku þeir fjármagnsskatta af reiknuðum hagnaði okkar – hurfu fljótt í bólubálið.

Einhver lög eða reglur ku banna lífeyrissjóðum okkar að fjárfesta nema að litlu leyti á Íslandi. Því hafa moldríkir lífeyrissjóðirnir tapað einhverju af peningunum okkar erlendis.

 

Ódýra húsnæðið

Nú spyr ég: Af hverju mega sjóðirnir ekki fjárfesta eitthvað fé í húsbyggingum? Hún hefur nú löngum þótt örugg steinsteypan! Ef sjóðirnir byggðu litlar íbúðir, jafnvel með barnaheimili, og leigðu unga fólkinu ætti það að vera hagkvæmara heldur en að afhenda milliliðum lóðir og láta þá um að verðleggja byggingarkostnað og ákveða söluverð eða leiguupphæð.

Lífeyrissjóðina mætti skylda til að hafa hönnun og kostnað uppi á borðum. Leigugjald mætti festa við Seðlabankann – og svo mundi sjóðurinn hagnast á hækkandi verði fasteigna!

 

Eitt enn

Sumt eldra fólk fengi með þessu tækifæri til að selja gamla, stóra húsið sitt og kaupa minna fyrir börn sín, eða hreinlega afhenda börnunum húsið – nú eða leigja það út og hafa af því smátekjur.

Íbúð fyrir „byrjendur“ og íbúð fyrir eldri hjón sem vilja minnka þrif og losna við viðhald eru ekki ósvipuð að stærð. Ef notkun breytist og eftirspurn fyrir eldra fólk fyllir eina byggingu má með litlum tilkostnaði og lítilli fyrirhöfn breyta barnaheimilinu í mötuneyti, spilasal eða fyrir aðra félagslega notkun.

 

Fjölbreytni

Með þessa hugmynd er hægt að leika sér og velta á ýmsa kanta. Það sem vinnst eru ódýrar íbúðir, stöðugra verðlag, tryggt framboð og húsnæði.

Fyrst og fremst eigum við að sjá sóma okkar í því sem þjóð að hjálpa öldruðum að eiga áhyggjulaust, mannsæmandi ævikvöld. Gleymum því ekki að þetta er fólkið sem byggði upp landið. Það er löngu kominn tími til að láta gerðir fylgja orðum.

 

Höf. er fv. forstjóri, flugumferðarstjóri og forsetaframbjóðandi –- Baldur@landsmenn.is

 

Morgunblaðið - aðsent efni - Þriðjudaginn 26. apríl, 2016 -