Árum saman hefur fólk mótmælt aðild okkar að Schengen "landamæraklúbbnum" með blaðaskrifum, bloggi ofl. Sjálfur skrifaði ég grein í Morgunblaðið 24.september, 1999 - semsagt áður en við hófum virka þátttöku í Schengen samstarfinu. Margir aðrir hafa mómælt síðan eins og oft má sjá í blöðunum.

 

Schengen mært við íslendinga.

 

Þegar verið var að segja almenningi frá ágæti Shengen voru settar fram nokkrar fullyrðingar sem vert er að rifja upp.

 

Í fyrsta lagi: Íslendingar munu ekki þurfa að bera vegabréf á ferðum innan Evrópu - hvers virði sem það átti nú að vera !

 

Í öðru lagi:"Ferðafrelsi" átti að vera milli Schengen-landanna en hver þjóð átti, á sinn kostnað, að annast landamæragæslu á þeim hluta ytri landamæra Shengen svæðisins sem að henni snéri. Þannig áttu Spánverjar td. að annast gæslu á "Schengen-landamærunum" á suðurströnd sinni og Frakkar á sama hátt á vesturströnd sinni. Milli þessar tveggja landa átti ekki að þurfa gæslu - þau eru bæði innan Schengen svæðisins. Sama gildir um mestalla Evrópu. Ísland gætir þannig norðvestur landamæra Schengen.

 

Í þriðja lagi: Aðild að Schengen átti að veita okkur aðgang að gagnagrunni sem innihélt upplýsingar um þekkta glæpamenn um alla Evrópu svo við ættum auðveldara með að þekkja þá og hindra komu þeirra til Íslands.

 

Í fjórðalagi: Ráðamenn þjóðarinnar töldu nauðsynlegt að tilheyra Schengen því annars gætum við og aðrir íbúar norðurlanda ekki ferðast án vegabréfs milli Íslands og hinna norðurlandanna en um það hafði verið samið einhverjum árum áður.

 

Hvernig tókst svo til?

 

Í einu orði sagt; ömurlega! Tilkynning frá dómsmálaráðuneytinu - strax í upphafi - sagði fólki til að taka vegabréfið með. Og núna? Við innritun í Leifsstöð erum við beðin að sýna vegabréf - jafnvel þó að ákvörðunarstaður okkar sé annað Shengenland!

 

Aðgangur að gagnagrunni um afbrotamenn er etv. til aðstoðar við löggæslu hár á landi. Hann er hinsvegar of dýru verði keyptur með aðild að Schengen. Við höfum t.d. lengi átt ágætt samstarf við alþjóðalögregluna INTERPOL

Athyglisvert er að Bretland - sem er ekki er aðili að samningnum fékk og hefur full afnot af gagnagrunninum.

 

Maður hlýtur að spyrja:  Var aðild kannski aldrei nauðsynleg?

 

Einhvernveginn finnst manni sjálfsagt að ríki skiptist á upplýsingum hættulega glæpamenn án þess að aðild að frjálsu ferðasambandi sé gerð að skilyrði. Einhvern veginn finnst manni að stjórnvöld fari stundum frjálslega með staðreyndir þegar upplýsingar eru veittar okkur landsmönnum.

 

Fyrir u.þ.b. tveim árum fór fólk að flykkjast frá Afríku til Spánar. Fljótlega fóru Spánverjar fram á að Esb. styddi þá og styrkti við landamæragæsluna - þrátt fyrir fyrrnefnd ákvæði Schengen samningsins. Sama sagan endurtók sig svo með Ítalíu og Grikkland. Af þessu getum við séð hvernig þátttökuríkin standa við samninga og ekki síður hvernig Esb. fer með framlög þátttökuríkjanna - og vill síðan fá aukin framlög frá ríkjum sínum, ma. til að kosta gæsluna sem þessi lönd áttu sjálf að bera.

 

Trygg landamæri - öruggt land.

 

Ferðafrelsi milli norðurlanda hefur sjálfsagt þótt eðlilegt á þeim tíma sem um það var samið, þjóðirnar af sama meiði og með sameiginlega sögu, menningu og lífsmat. Nú eru hinsvegar breyttir tímar: Stór hluti þeirra sem þar búa eru hvorki innfæddir svíar, norðmenn né danir, heldur austurlandabúar eins og td. íranir og sýrlendingar. Þetta fólk hefur alist upp við önnur trúarbrögð, menningu og þjóðfélagsleg gildi og uppbyggingu. Það stenst því ekki lengur að hafa frjálst flæði ferðamanna og fólks í leit að atvinnu og betri búsetu frá þessum löndum. Að vitna í sameiginlega fortíð norðurlandanna, menningu og tungumál er ekki aðeins rangt heldur beinlínis villandi og hættulegt.

 

Frá náttúrunnar hendi höfum við einhver bestu landamæri  í heimi. Notum þau og gætum þeirra sjálf. Þau eru skurnin utan um fjöregg okkar; landrými, auðlindir, lága glæpatíðni og heiðarlegt samfélag við bestu skilyrði.

 

Shengensamningurinn gerir íslendingum illt eitt eins og reyndar margt annað sem undan Esb. kemur. Þegar við lítum til annarra Schengenlanda og frétta frá td. miðjarðarhafs-ströndum þeirra, er ljóst að engir gæta Íslands betur en íslensk lögregla, útlendingaeftirlit og - þar sem það á við - Landhelgisgæslan.

 

Við eigum tafarlaust að segja okkur frá Schengen, taka upp eigin landamæragæslu og hætta þessari sífelldu þjónkun við Esb., erlend þjóðríki og stofnanir sem er til hreinnar skammar og niðurlægingar.

 

Baldur Ágústsson

 

Höf. er fyrrv. forstj og
frambjóðandi í forsetakosningum 2004

 

baldur@landsmenn.is