Eyþór Heiðberg

Nú eru tveir fýsilegir bitar, að sumum finnst, á borði okkar Íslendinga. Það er að leggja straumkapal til Evrópu og einnig að bora eftir olíu á Drekasvæðinu. Sama er hvorn eða báða bitana við veljum. Þeir munu báðir standa í okkur og breiða óhamingju yfir íslenska byggð.

 

Við eigum gjöful fiskimið og fagurt land, sem margan útlendinginn dreymir um að heimsækja. En mikið vill meira! Straumkapallinn til Evrópu á að gefa ógrynni peninga af sér. Um þetta er rætt þrátt fyrir að vitað sé að jöklarnir eru að hverfa og verða líklega alveg horfnir eftir 50 ár. Segjum að út í þetta glapræði verði farið og vatnið lækki hægt og hægt í uppistöðulónunum og straumurinn minnki hægt og hægt á kaplinum. Þá getum við sagt: „Guð sé oss næstur.“ Því ef ekki verður nógur straumur á kaplinum verður blessuð fjallkonan að láta af hendi gersemar sínar, Gullfoss, Dettifoss og Aldeyjarfoss og fleiri fossa til virkjunar til að standa í skilum með strauminn til Evrópu. Ef allt þrýtur, hvar á þá að stinga kaplinum í samband?

 

Svo er það þetta með olíuna. Nú hefur komið í ljós að ekki er hægt að reiða sig á orð vísindamanna sem oft eru slegnir sömu blindu og ævintýramennirnir. Þeir segja: „Það er allt í lagi að bora, þetta verður allt í lagi.“ Þetta segja þeir, þrátt fyrir lekavandræðin sem urðu á Mexíkóflóa hér um árið og langan tíma tók að stoppa. Helst er að reiða sig á orð vísindamanna sem hættir eru störfum vegna aldurs. Ég held að þetta með olíuleiðsluna verði eins ótryggt og garðslangan hjá mér þegar ég vökva garðinn; stundum fer stúturinn framan af slöngunni en alltaf lekur við inntakið.

 

Forspá

Fréttir 30. júní 2025:

Landsmenn og einnig erlendir fiskkaupmenn kvarta yfir olíubragði af fiskinum. Olíubormenn segja að þetta hafi ekkert með borunina á Drekasvæðinu að gera.

Fréttir 3. júlí 2025:

Í nótt um þrjúleytið varð vart við mikinn olíuleka við olíuinntakið á íslenska borsvæðinu. Olíuflekkurinn dreifist mjög hratt út með norðurströnd landsins og vísindamenn hafa gefist upp við að stoppa lekann, vegna óveðursins sem nú geisar á svæðinu og búist er við að olíuflekkurinn nái um allar strendur landsins innan mánaðar, ef ekki tekst að stoppa lekann. - Erlendir fiskkaupendur hafa afturkallað allar pantanir á fiski frá Íslandi, vegna olíumengunar við strendur landsins.

 

Í upphafi skal endinn skoða, stendur í góðri bók.

Hlaup eftir þessum villuljósum minna á þegar hundarnir í sveitinni hér í gamla daga hlupu á eftir bílunum. Ef illa fer þá segjum við Íslendingar vonandi ekki, eins og maðurinn sem hafði týnst á grasafjalli og verið þar í þrjú ár og var spurður, á hvern hann tryði og hann svaraði: „Ég trúi á trunt, trunt og tröllin í fjöllunum.“ Guð blessi Ísland. Höfundur er athafnamaður.