Ég óttast að hér sé að hefjast kínverskt >landnám. Ég óttast að það sé að verða á Grímsstöðum á Fjöllum til að byrja með. Fyrst verður félagi Nupos leyft að leigja jörðina til 60 eða 99 ára með framlengingarleyfi, eins og Nupo segir í Kína við blaðamenn. Hvernig geta sveitarstjórnir ráðið því að Ísland verði fjötrað um aldur og ævi? Ég hélt að hér væri ríkisstjórn, sem réði hlutunum og þyrði að taka á þeim.

 

Ég sé framhaldið svona fyrir mér ef samningur við Nupo um leigu jarðarinnar verður gerður. Fyrst koma hér Kínverjar og teikna allt upp og hinar og þessar byggingar verður ákveðið að byggja. Svo segir Nupo: „Mig vantar þúsund byggingaverkamenn.“ „Þá höfum við ekki, svona allt í einu. Við höfum tuttugu eða þrjátíu héðan að norðan,“ segja sveitarstjórnarmennirnir. „Það gengur ekki,“ segir Nupo, „þetta þarf að ganga fljótt fyrir sig. Ég ráðgeri að hér komi fljótlega kínversk skip, fleiri en eitt, með búnað og þá verða verkamennirnir að vera tilbúnir. Ég þarf þúsund byggingaverkamenn og þá get ég fengið strax frá Kína og þeir koma með fjölskyldur sínar með sér.“

 

„Hvaða laun eiga þessir verkamenn að fá,“ verður hér spurt? Þá segir Nupo: „Því ræð ég sjálfur, það er ég sem borga og það verður ekki eftir íslenskum töxtum.“ Þá segja sveitarstjórnarmennirnir: „Þetta er mjög skiljanlegt hjá honum. Þetta verður að gera eins og hann segir svo að eitthvað verði af framkvæmdum. Þetta er Íslandsvinur og þykir vænt um Ísland, hann gengur í lopapeysu og borðar harðfisk. Svo er hann dýravinur, myndir hafa sést af honum þegar hann er að leika sér með kött á skrifborðinu.“ „Godfather“ var líka að leika sér með kött. Ætli Nupo hugsi að kötturinn sé eins og íslenska þjóðin; veikgeðja og auðvelt að ljúga öllu sem maður vill að henni.

 

Íslenskur málsháttur segir: Ef þú réttir fjandanum litla putta, þá tekur hann alla höndina. Kínverjar flæddu yfir Tíbet og innlimuðu það. Ef Ísland lægi við hlið Kína væri búið að innlima það. Ísland var fyrsta landið sem neitaði Þýskalandi Hitlers um útþenslu þegar við neituðum þýska flugfélaginu Lufthansa um lendingarleyfi hér. Hefur stjórn Íslands manndóm í sér til að segja „nei“ núna? „Leyfið risanum að sofa,“ sagði Napóleon um Kína. Nú er Kína vaknað en er Ísland sofnað? Fljótum við sofandi að feigðarósi? Umrætt leiguland er of stórt. Við getum leyft útlendingum að byggja hér hótel en ekki eignast landsvæði. Ísland fyrir Íslendinga! Kínverjar geta komið hingað eins og aðrir ferðamenn og dvalið hér um tíma en ekki til að setjast hér að. Kínverjar! Verið velkomnir í heimsókn en þegar brottfarartími er kominn þá viljum við að þið farið heim en setjist ekki að á heimilum okkar. Guð blessi Ísland.

 

EYÞÓR HEIÐBERG

landunnandi.