Baldur Ágústsson

 

Opið bréf:

Nokkrar einfaldar spurningar til forsætisráðherra.

 

LÝÐRÆÐI

 

Þegar skoðuð er stefna núverandi stjórnarflokka í samstarfssamningi, samstarfsyfirlýsingu og málflutningi þeirra fyrir síðustu kosningar er ljóst að háleit markmið og umhyggja fyrir þjóðinni voru í efsta sæti. Meirihluti kjósenda fagnaði þessu og gerði með atkvæðum sínum kleift að mynda “norræna velferðarstjórn í besta skilningi þess orðs” svo vitnað sé í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

 

Fyrir utan – og sem hluti af – skjaldborg heimilanna, hjól atvinnuveganna og óskert velferðarkerfi, voru fyrirheit um gegnsæja stjórnarhætti, góða upplýsingagjöf og virkara beint lýðræði. Það síðastnefnda var skýrt þannig að frambjóðendur, ef kjörnir, myndu hlusta á þjóðina, taka tillit til skoðana hennar og ekki síst: Lítill hluti kjósenda gæti krafist – og fengið – þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál þmt. þingrof og nýjar kosningar. Nefnt var að 10-15% kjósenda þyrfti til.

 

Eftir langvarandi auðmannadekur, misskiptingu auðs og einkavæðingarfár var þetta einmitt það sem fólk almennt vildi. Þetta var það sem stjórnarflokkarnir seldu þjóðinni – og hún keypti með atkvæðum sínum. Spurt er: Hvenær fer afhending hins selda fram?

 

Hví hafa reglur ekki verið settar um rétt kjósenda til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu í samræmi við fyrrnefnd fyrirheit. Ljóst er að líklega verður slíkt sett í nýja stjórnarskrá. Hún getur hinsvegar – eins og reynslan sýnir - verið mörg ár í burðarliðnum og eftir því er ekki hægt að bíða – allra síst nú þegar taka þarf stórar ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar. Ekkert hindrar alþingi/ríkisstjórn í að setja reglur um þetta í samræmi við fyrirheitin. Um leið og ég spyr hvaða fyrirætlanir hafa valdhafar um að standa við orð sín, þá skora ég á þá að gera það nú þegar. Þetta er einfalt og fljótlegt; vilji er allt sem þarf.

 

ICESAVE

 

Frá því að þjóðin felldi Icesave samninginn, í þjóðaratkvæðagreiðslu, eru nú liðnir um 10 mánuðir. Að sögn stjórnvalda var þar besti fáanlegi samningur sem mögulegt væri að ná.

 

1. Hvernig stendur á því, eftir að “besti fáanlegi samningur” var felldur af þjóðinni, að íslensk stjórnvöld héldu áfram viðræðum við Holland og Bretland – sem leiddi til þess samningsuppkasts sem nú liggur á borðinu ? 

 

a. Óskaði Alþingi eftir því – ef svo, óskast tilvísun í þingskjöl. b. Ákvað ríkisstjórnin það sjálf, og ef svo: Hversvegna?

 

2. Hver hefur kostnaður þjóðarinnar/ríkisins verið – að öllu meðtöldu – þessa tíu mánuði – við viðræður og annað er snertir undirbúning hinna nýju samningsdraga?

 

a. Sundurliðað.

b. Samtals.

 

3. Hver er allur kostnaður við Icesave-viðræður orðinn frá upphafi samningsviðræðna til áramóta nú - 2010/11?

 

4. Hyggjast stjórnvöld leggja hinn nýja Icesave-samning í dóm þjóðarinnar – og við hvaða meirihluta á þá að miða til samþykktar?

 

ESB

 

5. Hversvegna ákvað alþingi að sækja um aðild að ESB? a. Hvaða hag átti að hafa af aðild? b. Eru þær forsendur sem lágu til grundvallar enn til staðar?

 

6. Hver var kostnaður við umsóknar- og samninga-ferlið upphaflega áætlaður?

 

a. Hver var hann orðinn um nýliðin áramót?

 

b. Var gerð áætlun (“viðskiptaáætlun/business plan”) um tekjur og gjöld við ESB aðild fram í tímann – td. 25 ár? Hvenær gerði hún ráð fyrir að tekjur Íslands af aðild hefðu greitt upp inngöngukostnað og árleg aðildargjöld, þ.e.a.s. núllpunkti væri náð?

 

c. Hver var áætlaður hagnaður pr. ár eftir það við ESB aðild umfram það að standa utan bandalagsins?

 

d. Hvernig skiptist hagnaður Íslands; td. lækkuð tollgjöld, fastir styrkir frá ESB o.sv. frv.

 

7. Ef til þess kemur að innganga Íslands í ESB stendur til boða mun þá innganga verða borin undir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Mun þjóðin – beint – hafa síðasta orðið?

 

a. Hversu stóran meirihluta þarf þá til að innganga teljist samþykkt?

 

b. Verður miðað við hlutfall af öllum kjósendum á landinu? - eða aðeins hlutfall af þeim sem greiða atkvæði?

 

c. Mun ein atkvæðagreiðsla látin duga eða þarf fleiri – t.d. tvær með sex mánaða millibili?

 

ATH: Geti ráðherra ekki svarað spurningunni þá hversvegna ekki og hvernig telur ríkisstjórnin eðlilegast að framkvæma þjóðaratkvæði – hvað snertir ESB aðild

 

Um þetta er spurt því óneitanlega jafngildir innlimun Íslands í ESB fulveldisafsali þjóðarinnar og er því alvarlegasta ákvörðun sem nokkur þjóð getur tekið.

 

Svar óskast sent hið fyrsta til undirritaðs, svo og Morgunblaðinu til birtingar.

 

Reykjavík, 4.1.2011

 

Baldur Ágústsson

 

Höf. er fv. forstjóri og forsetaframbjóðandi

www.landsmenn.is - baldur@landsmenn.is