Eftir Guðfinnu Árnadóttur:

 

\"Fyrir hádegi er sól og eftir hádegi er stórhríð og um kvöldið eru norðurljós í logni og fallegu vetrarveðri.\"

 

Þjóðarstolt, hvað er þjóðarstolt, af hverju finnum við fyrir þessu, hvenær, og hverju erum við svona stolt af? Við erum sífellt að biðja um staðfestingu. Staðfestingu og viðurkenningu. Viðurkenningu á því að við séum hérna til og getum hjálpað öðrum. Viðurkenningu á því að við séum til í þessum stóra heimi og getum skipt máli.

\"Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.\"

 

- er eitthvað til í þessum frægu ljóðlínum?

 

En þessari? „Ísland er ekki lítið land, það er stórasta land í heimi.“ – sagði Dorrit, nýja forsetafrúin okkar. Ég brosi alltaf þegar þetta er spilað í fjölmiðlum og get svo sannarlega verið sammála henni. Þegar við fengum sjálfstæðið iðaði fjöldinn af monti, sjálftrausti og öryggi um að við værum loks viðurkennd sem sjálfstæð þjóð í þessum heimi. Þetta „stórasta land í heimi“ var komið til að vera og ætlaði að, jaaa sigra heiminn?

 

Við sameinumst þegar vel gengur, en þegar illa gengur hugsar hver um sjálfan sig og eigingirnin blossar upp. Eða er það ekki? Þetta er eitthvað sem er innprentað í marga. „Fnuss, ég hugsa um mig sjálf“

 

Með árunum fer ég að bera meiri virðingu fyrir landinu okkar, sögunni okkar sem er varðveitt vandlega og er mikil. Menningunni okkar sem er sér á báti, gildunum sem eru gamaldags og verður vonandi haldið í sem lengst, fólkinu sem er duglegt og hraust, og síðast en ekki síst fallegu umhverfinu sem verður dýrmætara með hverjum mánuðinum sem ég er á lífi. Það er ástæða fyrir því að Gunnar á Hlíðarenda hlýddi ekki skipun um að yfirgefa Ísland í Njálu. „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi,“ sagði kappinn og stóð við það.

 

En það sem mér finnst skemmtilegast við Ísland er hversu það kemur manni á óvart. Ég er ekki hrifin af kuldanum en á vissan hátt finnst mér orðið gaman að breytileika veðursins. Fyrir hádegi er sól og eftir hádegi er stórhríð og um kvöldið eru norðurljós í logni og fallegu vetrarveðri. Ég man að í fyrravetur las ég þessa frétt og áttaði mig á hversu yndislega miklu ævintýralandi við búum á.

 

Lögreglan í Þingeyjarsýslum og Umhverfisstofnun hvetja fólk, einkum í dreifbýli, til þess að hafa allan vara á þegar það er á ferð úti við. Þessi dýr eru stórhættuleg. Þótt þau virðist klunnaleg geta þau hlaupið hraðar en nokkur manneskja, ekki síst ef þau eru hungruð.

 

Já, það er verið að vara fólk við ísbjörnum á landinu. Hversu dásamlega klikkað er það að búa á þessu landi.

 

Ég er að reyna líta björtum augum á fjárhaglega erfiðleika Íslands og segja að sumir hafa mjög gott af þeim. Draumur minn um að sjálfsþurftarbúskapur sé tekinn upp að nýju á auknum mæli kemur upp í hugann, þó að það sé aldrei hægt nema að vissu leyti í dag reyndar. Eða hvað?

 

Ég vildi óska að ég kynni hannyrðir og mundi sauma föt á mig og börnin, og gæti ræktað allt mitt grænmeti og búið til ost og átt kú og hænu og kynni á jurtir. Ég ætti kannski bara að gerast bóndi og taka mig á orðinu. Nei það er auðvelt að keyra bara bílinn í búðina og kaupa þetta. En ég væri alveg til í að þetta væri tekið upp í auknum mæli og já jafnvel að fólk gefi bara skít í hvað allt er orðið dýrt og segi „Fnuss ég sé bara um mig sjálf“ og rækti rabarbara í garðinum og fái sér annað slagið ókeypis rabarbaragraut í matinn.

 

Frá einni sem þykist vilja vera bjartsýnni um kreppuna og sér hvað Ísland er skemmtilegt land stundum.

 

Höfundur er leikskólaleiðbeinandi.