TRYGGVI HJALTASON:
HERVÆÐING EVRÓPUSAMBANDSINS.
\"Evrópusambandið hefur verið í farvegi hervæðingar í nokkurn tíma. Umræða um ESB hér á landi þarf að taka mið af þessari þróun.\"
Umræðan um hernaðarlegt eðli Evrópusambandsins er lífleg þessa daganna og birtist grein eftir Semu Erlu Serdaroglu í Morgunblaðinu hinn 14. júlí sem ber heitið ESB hernaðar- eða mannúðarsamband? þar sem lítið var gert úr hervæðingu Evrópusambandsins og talið ólíklegt að sameining herafla ESB-ríkja myndi nokkurn tímann eiga sér stað. Evrópusambandið (ESB) hefur hins vegar verið í farvegi hervæðingar í dágóðan tíma. Miðað við eðli sambandsins og vilja þess til aukins áhrifamáttar í heimsmálum kemur sú þróun sem farið verður yfir hér að neðan ekki á óvart.
Frakkar hafa stungið upp á sameiginlegri flugmóðurskipadeild ESB og var hvítskýrsla Frakka um varnarmál mjög skýr í þeim efnum að stefna ætti á sameiginlegar Evrópuhersveitir innan ESB. Þá hafa Frakkar einnig rætt mikilvægi þess að sameina vopnaiðnað Evrópuríkja. Loks eru í gangi mörg verkefni sem snúa að þessari þróun og má þar m.a. benda á evrópsku þungalyftu-áætlunina (European heavy lift program). Skýrasta dæmið um þá undirbúningsvinnu sem er nú í fullum gangi við hervæðingu ESB er þó vafalaust Lissabon-sáttmálinn. Greinar 27 og 28 í sáttmálanum leggja grundvöll að því að koma á fót Evrópuher. Þá leggur Lissabon-sáttmálinn einnig línurnar að þróun sameiginlegrar varnarmálastefnu fyrir Evrópusambandið.
Grunnvinnan fyrir þetta ferli er langt á veg komin. Grein Semu fór ekki yfir þá þróun sem bent er á hér að ofan en tók hins vegar fram að ESB væri t.d. öflugt í þróunarverkefnum. Það má vel vera en það breytir því ekki að ESB er í sinni núverandi mynd að stefna að því að gera sig meira gildandi á hernaðarsviðinu. Þess vegna á undirritaður erfitt með að skilja hvernig hægt er að halda öðru fram þegar fyrirliggjandi gögn eru skoðuð.
Eftir Tryggva Hjaltason