um frs.ráðh.bréf

OPIÐ BRÉF TIL FORS . . . SVÖR:

 

Opið bréf til forsætisráðherra, frambjóðenda og kjósenda birtist 17.4.2009 í Mbl. Óskað var svara við spurningum um stærð kreppunnar og áætlanir stjórnvalda og frambjóðenda um lausn þessa mikla vanda. Nú, þegar fáir dagar eru til kosninga eiga kjósendur rétt á að fá spilin á borðið. 

EF við fáum það ekki, um hvað erum við þá að kjósa - varla kreppulausnir.

 

Greinina - hið opna bréf - má finna undir "greinasafn" hér á síðunni. Svör sem berast verða birt hér - undir "fréttir" á hádegi miðvikudaginn 22.4. 

LÍTTU VIÐ !

 

 

 

22.4.2009:

 

Góðir landsmenn,

 

Eins og fram kemur hér að ofan leitaði undirritaður til ríkisstjórnarinnar og frambjóðenda í opnu bréfi er birtist í Morgunblaðinu þ. 17. þ.m. Og lesa má í greinasafni hér á vefsetrinu.

 

Þessir aðilar, sem nú sækjast eftir atkvæði okkar í komandi kosningum, voru spurðir hvernig þeir sæju vanda þeirrar kreppu sem nú ríður yfir, hvernig skuldir og skuldbindingar okkar sundurliðast og hvaða áætlanir væru fyrir hendi til að binda endi á ástandið. Allir voru þeir beðnir að senda inn skýrar upplýsingar eigi síðar en á hádegi 21.4 sem síðan yrðu birtar á www.landsmenn.is á hádegi 22.4. - og um leið sendar fjölmiðlum. Þetta kann að virðast stuttur fyrirvari en því frekar má áætla að björgunar-áætlun liggi fyrir, sem stutt er til kosninga og allir þessir aðilar vilja að þjóðin treysti þeim fyrir stjórnartaumunum að þeim loknum.

 

Það er leitt frá því að segja að ekkert framboðanna notaði þetta tækifæri til að sýna kjósendum að það hefði lausnir á þeim vandamálum sem það vill fá umboð kjósenda til að leysa úr - ekki boðaði heldur nokkurt þeirra “forföll”, bað um lengri frest eða óskaði frekari skýringa á spurningunum. 

 

Aðeins framboðin sjálf geta svarað því hvort þessu veldur áhugaleysi, vanhæfni, annir, þekkingarskortur á því verkefni sem bíður eða eitthvað annað. Hitt vita kjósendur nú, sem marga grunaði áður, að allt tal um hjól fyrirtækjanna og skjaldborg heimilanna er að mestu aðeins það - almennt tal.

Kjósendum hefur ekki verið gefin nein ákveðin, tæmandi áætlun um greiðslu skulda, upphæðir eða bjargráð sem sýna heimilum og fyrirtækjum hvernig og hvenær vandinn verður endanlega leystur. Því síður er ljóst hvað lausn þessa mikla vanda kostar okkur í peningum, lífsskilyrðum eða jafnvel sjálfstæði þjóðarinnar.

 

Af hendi undirritaðs var hið opna bréf tilraun til að fá stjórnvöld til að sýna vandann - og að þau vissu hver hann er, svo og von um eitthvert - eða öll - framboðanna sýndu að þau skildu vandann til hlítar og biðu upp á góðar, ábyrgar og endanlegar lausnir. Það hefði hjálpað kjósendum að ráðstafa atkvæði sínu.

 

Þessi tilraun hefur þó ekki verið alveg til einskis - það eitt að engin svör bárust, er svar útaf fyrir sig.

 

Með góðri kveðju,

 

 

Baldur Ágústsson