Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður og skákmeistari: Við Íslendingar höfum löngum verið hjátrúarfull. Við trúum á stokka og steina, álfa og huldufólk og ýmislegt annað gott. Það verður hins vegar að viðurkennast að á undanförnum árum höfum við farið offari í hjátrúnni og orðið hindurvitnum fullkomlega að bráð. Þannig gerðist það á undraskömmum tíma að samfélagið allt varð heltekið af milljarðamæringavæðingu. „Strákarnir okkar“ í útrás og yfirtöku urðu sem hendi væri veifað að góðhjörtuðum töfranornum á kústskafti einkaþotunnar sem þeystu heimshorna á milli til þess víst eins að gera Íslendinga alla auðugri. Töfrateppi einkavæðingar var slíkt að meira að segja Bessastaðir lutu í gras og gáfu út hástemmdar yfirlýsingar um hvernig heimurinn gæti lært af íslenskum undradrengjum milljarðanna. „You ain´t seen nothing yet“ sagði stóra Ísland við litlu heimsbyggðina. Nú þykir mér á margan hátt vænt um þennan eiginleika þjóðarsálarinnar. Við erum nýjungagjörn og auðtrúa og við erum snillingar í að „redda“, auk þess sem við höfum dálítið krúttlega tilhneigingu til mikilmennskubrjálæðis. Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál eða Jón Ásgeir og ekki heldur fyrir okkur hin. Trúin á okkur sjálf, að ekkert vaxi okkur í augum, sveigjanleiki okkar og smæð, stuttar boðleiðir og kappsemi – allt er þetta auður í sjálfu sér. En oft er það jú þannig að manns stærsti kostur er um leið manns augljósasti veikleiki. Við verðum ítrekað trúnni á „reddinguna“ að bráð. Eitt árið er það loðdýrarækt, það næsta fiskeldi, annað árið er það stóriðja og hitt árið útrás, næsta árið evran: Alltaf finnum við eitthvað sem á að redda okkur frá hinni reddingunni sem brást. En þannig er bara ekki lífið. Heilbrigðar undirstöður og manngildi verða aldrei til á kústskafti reddinga heldur byggjast upp með tíma, ráðum og dáð – og ævinlega af einhvers konar blöndu af hugrekki, hugmyndaauðgi, aga, vinnusemi og úthaldi. Erfiðustu hindurvitnin eru hins vegar þau sem við tökum ekki eftir að við trúum heldur gefum okkur sem augljós sannindi. Við erum meðvituð um að trúin á álfa er bara trú; við erum hins vegar ómeðvituð um að trúin á „lögmál markaðarins“ er kennisetning en ekki vísindi. Staðreyndin blasir þó við: Kerfi fjölþjóðlegs auðvalds, arðráns og spákaupmennsku er rotið inn að rótum og meira að segja Bandaríki Norður-Ameríku kalla nú á þjóðnýtingu. Hver hefði trúað því fyrir 2 árum síðan þegar „þjóðnýting“ var sagt með fyrirlitningu en „einkavæðing“ var sæt sem sykur? Gildin sem aldrei skulu hvika er það sem nú þarf að endurreisa í okkar litla samfélagi, samfélagi sem vissulega á ævinlega að hugsa stórt: Jöfnuður, jafnrétti, framsýni, frumkvæði, sanngirni, sjálfbærni, sjálfstæði. Það er í fínu lagi að trúa áfram á huldufólk en trúin á töfrateppi græðginnar og reddingarinnar skal víkja. Þótt fyrr hefði verið.