Fullveldi þjóðar er þannig líkt frelsi einstaklings að hvorugt er metið að verðleikum fyrr en það tapast. Evrópuþjóðir margar hverjar hafa þrásinnis fórnað lífi þegna sinna til að sækja og verja fullveldið. Saga Evrópu síðustu 200 árin er mörkuð baráttu þjóða fyrir sjálfstæði og fullveldi.

 

Flestar smærri þjóðir Evrópu eru þannig í sveit settar að voldugir nágrannar hafa ýmist haft öll ráð þeirra í hendi sér, Englendingar á Írlandi í 500 ár, mátt þola lítt duldar hótanir um ofbeldi eins og Finnar af hendi Rússa á sovéttímabilinu, verið leiksoppar stórveldaátaka samanber innrás Þjóðverja í Belgíu í báðum heimsstyrjöldum, eða þvinguð í ríkjaheildir líkt og þjóðir Júgóslavíu heitinnar.

Stofnað var til Evrópusambandsins með Rómarsáttmálanum árið 1957 af þrem stórþjóðum sem báru þunga ábyrgð á tveim heimsstyrjöldum, Frakkland, Þýskaland og Ítalía, og þrem smáþjóðum sem í gegnum tíðin hafa verið í þjóðleið herja stórveldanna, Belgía, Lúxembúrg og Holland. Verkefni ESB og forvera var frá upphafi að halda friðinn í álfunni með því að flétta saman efnahagslegum hagsmunum aðilarríkjanna; Kol- og stálbandalagið var undanfari ESB. Þær þjóðir sem síðar ganga inn í ESB hafa gert það af sárum sögulegum ástæðum. Þau örfáu ríki sem ekki töldu sig knúin að ganga inn í ESB en fóru inn engu að síður, til dæmis Bretland og Svíþjóð, hafa fullan fyrirvara á aðildinni.

Evrópusamruninn er ekki þjóðfélagshreyfing. Hvergi í álfunni hafa verið skipulagðar fjöldagöngur til stuðnings ESB né hafa verið reist götuvígi í nafni Evrópuhugsjónar. ESB er ill söguleg nauðsyn meginlandsríkja Evrópu til að halda friðinn. Gerendur og þolendur styrjaldarátaka töldu fullveldisframsal til yfirþjóðlegs bandalags neyðarúrræði. Við höfum hvorki verið gerendur né þolendur í hernaðarskaki Evrópu. Vígvellir álfunnar eru ekki hluti af þjóðarvitund Íslendinga, góðu heilli. Í íslensk eyru er tómt mál að tala um valdaframsal til Brussel til að tryggja friðinn í heimshlutanum.

Ólíkt þorra Evrópuþjóða sem guldu fullveldið með blóði var barátta Íslendinga háð með grúski í dönskum og norskum söfnum þar sem fornum skjölum var teflt gegn umboði danskra yfirvalda til að ráðskast með þjóðina. Blek er þynnra en blóð og ritgerðir íslenskra sjálfstæðissinna ekki jafn eftirminnilegar og mannfórnir eru þeim þjóðum sem höfuðu meira fyrir fullveldinu.

 

Þrátt fyrir huggulega sjálfstæðisbaráttu er fullveldið Íslendingum jafn mikilvægt og öðrum þjóðum. Knýjandi rök þurfa að vera fyrir valdaframsali til útlanda. Þau rök verða að byggja á þjóðarvitund um gildi fullveldis annars vegar og hins vegar langtímahagsmunum þjóðarinnar.

Það hrófatildur af málflutningi sem nýríkir imbar bjóða upp á í bandalagi við genetíska kvislinga og nytsama sakleysingja og á að heita rök fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu tekur mið af viðskiptalegum stundarhagsmunum og pólitískri refsku. Það er ábyrgðarhluti af gefa þvættingnum gaum jafnvel þótt hann komi úr munni milljarðamæringa á barmi örvæntingar og dimmraddaðra barna í ráðherrastólum lýðveldisins.

PÁLL STEFÁNSSON

Höf. er blaðamaður.