Þjóðhátíð höldum við árlega til að fagna frelsi og fullveldi. Það gerum við á fæðingardegi frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar, því við vitum að að frelsið er okkar dýrmætasta eign.

 

Aðstæður í þjóðfélaginu eru mismunandi, þær breytast ár frá ári. Þegar við vorum að fá fullveldið um miðja síðustu öld áttum við landið, menningu okkar og samhug sem ein fjölskylda. Okkur “skorti” meira en við áttum – a.m.k. miðað væntingar okkar í dag. En við snerum bökum saman og byggðum upp; Við bættum menntun og atvinnutæki, færðum út landhelgina og unnum markaði. Skref fyrir skref leystum við hvern vanda glöð yfir sjálfstæði okkar og samstöðu, eins og ein fjölskylda. Það - og landið okkar góða - varð lykillinn að velmegun og velgengni okkar sem þjóðar og einstaklinga.

 

Líkt og skip á sjó fékk þjóðarskútan okkar oft mótbyr, lenti í öldudal – jafnvel stórsjó. Sú þjóðhátíð sem við höldum í dag er einmitt haldin í öldudal, efnahagslegum vanda, sem við þó vitum af reynslunni að er minni en við höfum oft unnið okkur út úr áður. Fögnum því, minnug þess að fátt stendur okkur í vegi þegar við stöndum saman og höfum frelsi og jafnrétti í öndvegi.

 

Viðhorf skiptir öllu. Stundum er sagt: Ef þú telur að þú getir ekki eitthvað, þá hefur þú rétt fyrir þér. Þetta er umhugsunarvert.

Upp í huga minn kemur viðtal sem ég heyrði fyrir mörgum árum í útvarpi. Verið var að ræða við ungan skátaforingja sem stjórnaði stóru landsmóti á Úlfljótsvatni. Fréttamaðurinn spurði: “Koma ekki upp mörg vandamál við undirbúning og framkvæmd svona móts?” Skátinn ungi svaraði hiklaust:”Það eru engin vandamál til, aðeins mis-erfið verkefni sem við leysum”.

 

Göngum stolt fram með þessu hugarfari. Breytum “vandamálum” dagsins í verkefni og leysum þau. Til þess höfum við frelsi - frelsi sem við fögnum í dag.

 

Baldur Ágústsson