Hermann Þórðarson: Í TENGSLUM við fjármálakreppuna sem riðið hefur yfir heiminn að undanförnu hafa raddir svokallaðra Evrópusinna gerst æ háværari og telja þeir að öll vandamál sem við okkur blasa leysist auðveldlega með aðild að Evrópusambandinu.

 

Sá vandi sem að okkur steðjar nú er þó ekki allur alþjóðlegu fjármálakreppunni að kenna heldur fyrst og fremst hóflausu fjárfestingaæði íslensku bankanna erlendis, slælegri stjórnsýslu hér heima og afglöpum stjórnmálamanna. Hvernig þessi vandi á að leysast með aðild að ES er mér hulin ráðgáta auk þess sem það er vitað að þetta er margra ára ferli. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er ekki sérlega vel að mér í hagfræði og fjármálum yfirleitt en »sérfræðingar í Evrópumálum« eru heldur ekki á eitt sáttir um hvað sé best fyrir okkur að gera í þessu sambandi og þjóðin virðist skiptast í tvo nokkuð jafnstóra hópa hvað skoðanir á því varðar. Það er úr vöndu að ráða fyrir þá sem ekki gera sér að fullu grein fyrir því um hvað málið snýst, eða hafa einhverjar skoðanir á því.

 

Ég sem er andstæðingur aðildar, aðallega af þjóðernisástæðum, mun því í þessari grein benda á atriði sem ég tel neikvæð við aðild að ES. Í fyrsta lagi er ES hvorki ríki né sambandsríki í þeirri merkingu sem þessi orð þýða. Samt er gerð sú krafa til ríkja sem gerast aðilar að því að þau afsali sér fullveldi sínu í ákveðnum málum til skriffinnskuveldisins í Brüssel. Þetta hefur m.a. valdið því að sjávarútvegur er nú að mestu útdauður á Bretlandseyjum og það eru aðrir en Bretar, einkum Spánverjar, sem fá að nýta sér fiskimið Breta.

 

Önnur dæmi mætti nefna eins og t.d. það að Evrópumenn geta ekki komið sér saman um eitt sameiginlegt tungumál sem hin risaveldin, BNA og Rússland þurfa ekki að hafa áhyggjur af. ES aðild okkar myndi þýða að okkar nýfengna sjálfstæði, sem ekki er eldra en sem nemur einum mannsaldri, verður á glæ kastað. Annað sem miklu máli skiptir fyrir okkur Íslendinga eftir reynsluna frá »kalda stríðinu« eru varnarmálin. ES hefur reynst ófært um að leysa sín sameiginlegu varnarmál þar sem sundrungin og óeiningin á milli stórþjóðanna í Evrópu gerir það að verkum að þær geta ekki myndað sameiginlegan her Evrópu. Þær geta ekki einu sinni samræmt vopnaframleiðslu sína þannig að vopnin gagnist öllum þeim herjum sem eru við lýði í ES. Það eina sem er jákvætt í sambandi við varnir ES er NATO. Allir leggja traust sitt á varnarbandalagið. Nýjar aðildarþjóðir í ES vilja allar gerast aðilar að NATO því að í þessu gamla varnarbandalagi sem í upphafi beindist gegn Sovétríkjunum og kommúnismanum hefur reynst vera hið eina raunhæfa afl sem getur varið Evrópu gegn utanaðkomandi ógnum. Þetta kom berlega í ljós í átökunum sem fylgdu í kjölfar upplausnar Júgóslavíu. ES reyndist ófært um að koma að því vandamáli. Það kom því í hlut NATO og síðar SÞ með hjálp nokkurra aðildarþjóða þess að leysa málið. Það eina sem er jákvætt við ES, enn sem komið er, er að það hefur komið í veg fyrir átök og stríð milli stórþjóðanna í Evrópu sem valdið hafa miklum hörmungum í Evrópu eins og tvær síðustu heimstyrjaldir bera glöggt vitni um. Örþjóð eins og Ísland á ekkert erindi í ES, við myndum týnast fljótlega í þjóðasúpunni þar og verða eins og lítill hreppur í Brüssel. Gott dæmi er Luxemburg. Fyrir nokkrum áratugum var þetta land ein helsta fjármálamiðstöð heimsins og ein helsta samgöngumiðstöð milli Evrópu og umheimsins. En hver heyrir minnst á Luxemburg í dag? Það síðasta sem ég frétti af þeim slóðum var að þeir, Luxemburgarar, ætli ekki að styðja aðild Íslands að öryggisráðinu, vilja heldur Tyrki.

 

Gleymum aðild að Evrópusambandinu, við getum vel verið án þeirra en þeir vilja aftur á móti gleypa okkur með húð og hári. Verndum fullveldið. Stöndum á eigin fótum.