GUÐNI ÞORVALDSSON skrifar:
ÞEGAR rætt er um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið eru oft færð fram rök um efnahagslegan ávinning. Slík rök byggjast gjarnan á flóknum útreikningum sem almenningur getur átt erfitt með að leggja mat á. Vissulega skipta efnahagsleg rök máli en að mínu mati ber fyrst að líta til þess hvers konar fyrirbæri Evrópusambandið er. Hvers konar stjórnsýsla er þar viðhöfð? Hvaða áhrif hefur aðild á sjálfstæði aðildarríkjanna? Hvaða áhrif hefur aðild á ákvörðunarrétt aðildarríkjanna í eigin málum? Færist ákvarðanataka frá aðildarlöndunum til Brussel í málum sem eðlilegt er að taka ákvarðanir um heima fyrir? Þjappast vald á fárra hendur? Hvaða áhrif hefur regluverk Evrópusambandsins á atvinnulífið og nýsköpun á því sviði? Er kerfið fljótt að leiðrétta sig ef tekin er röng stefna? Spurningum sem þessum þurfum við að byrja á að svara.
Ef stjórnsýsla Evrópusambandsins er með einhverjum hætti óeðlileg og möguleikar á breytingum takmarkaðir mun aðild fyrr eða síðar hafa neikvæð áhrif, einnig á efnahag aðildarríkjanna jafnvel þótt útreikningar bendi til ávinnings til skemmri tíma litið. Heilbrigð stjórnsýsla er forsenda efnahagslegra framfara og góðs samfélags. Mikilvægi réttrar stjórnsýslu er vel þekkt meðal fólks sem rekur fyrirtæki af ýmsum stærðum. Þar skiptir höfuðmáli að ákvarðanir séu teknar á réttum stöðum, boðleiðir séu skýrar og skipulagið gagnsætt.
Eftir því sem ég fæ séð vantar töluvert á að Evrópusambandið bjóði upp á heilbrigt og eðlilegt samstarf þjóða. Það teygir arma sína mun lengra inn fyrir landamæri þjóðanna en ég tel eðlilegt. Mér finnst Evrópusambandið því ekki álitlegur kostur og tel farsælla að byggja upp samstarf við þjóðir á öðrum grunni en þar er boðið upp á.