ÞAÐ er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda, og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.
Þeir sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn, eru þar með, vitandi vits, að tryggja fámennum hópi með sterk ítök í fjármálalífi þjóðarinnar áframhaldandi tök á ríkisvaldinu í fjögur kjörtímabil samfellt. Kjósendum væri hollt að hafa í huga, að þessir flokkar skipta líka með sér völdum í höfuðborginni, þótt ekki sé það í krafti meirihluta atkvæða. Þótt Framsóknarflokkurinn sé nærri þorrinn fylgi í höfuðborginni, tókst honum að sölsa undir sig drjúgan hlut af valdakerfi höfuðborgarinnar. Vilja kjósendur, vitandi vits, framlengja valdaeinokun þessa fámennishóps fjórða kjörtímabilið í röð?
Kjósendum væri líka hollt að hafa í huga, að allir fjölmiðlar landsins, sem máli skipta, eru undir stjórn manna, sem eru handgengnir þessum valdahópum. Er það hollt lýðræðinu? Er það vænleg leið til að tryggja valdhöfum nauðsynlegt aðhald? Eða erum við, Íslendingar, af einhverjum ástæðum svo vammlaust fólk, að við þurfum ekki að óttast, að spilling geti nokkru sinni þrifist í skjóli valdsins í okkar fámenna þjóðfélagi? Trúum við því virkilega? Kemur það heim og saman við reynslu okkar af stjórnarfarinu á valdatíma núverandi stjórnarflokka?
Á stjórnartíma Framsóknarflokksins sl. tólf ár eru þess hins vegar dæmi, að fyrrverandi forystumenn flokksins, sem og skjólstæðingar hans í fjármálaheiminum, hafi auðgast persónulega vegna stjórnvaldsaðgerða, sem þeir hafa staðið fyrir eða haft áhrif á. Það er alvarlegt mál fyrir lýðræðið í landinu, þegar stjórnmálaflokkar í landinu eru orðnir eins konar eignarhaldsfélög um fjárhagslega hagsmuni forystumanna og skjólstæðinga þeirra. Í DV 4. maí sl. er viðtal við Arnþrúði Karlsdóttur, fv. varaþingmann Finns Ingólfssonar, af því tilefni, að hún sagði sig úr Framsóknarflokknum eftir áratuga starf, enda búin að fá sig fullsadda af spillingunni. Arnþrúður segir: \"
Þetta er þéttriðið valdanet, innmúrað og innvígt. Það skiptir atvinnulífinu í áhrifasvæði, einkavæðir samkvæmt helmingaskiptareglu, úthlutar gjafakvótum og ræður í toppstöður hjá hinu opinbera samkvæmt flokksskírteinum. Næst ætla þeir að sölsa undir sig orkulindirnar.