Það er ánægjulegt að sjá þá áherslu sem málefnum eldri borgara og öryrkja hefur verið gefin í stefnuskrám allra flokkanna núna eftir að undirbúningur hefur hafist fyrir framboð á vegum þeirra sjálfra. Nú finnst ekki sá flokkur sem ekki vill allt fyrir aldraða og öryrkja gera. Ellilífeyrir á að hækka svo um munar, skattleysismörk að hækka svo hægt sé að vinna svolítið án þess að lífeyrir lækki , tekjutengingar hjóna og skerðingaráhrif þeirra eiga að fjarlægjast með einu hnífsbragði. Heimilishjálp og hjúkrun á að auka svo um munar, fjölbýli á dvalarheimilum á að leggja af svo hver einstaklingur hafi sitt eigið herbergi - og snyrtiherbergi. Fjölgun hjúkrunarrýma, svo hundruðum skiptir, er einnig á dagskrá allra flokka. Skóflustungum ráðamanna að betra lífi þessa fólks sem barist hefur í bökkum í áratugi, hefur fjölgað svo að helst mætti halda að sumir þeirra hefðu snúið sér alfarið að jarðvegsvinnu. Það er ekki oft sem við almenningur sjáum slíkan einhug meðal ráðamanna þjóðarinnar. Því fögnum vér allir. Þetta er það sem við þurfum: Alþingi, þar sem deilur um “smámál” víkja fyrir göfugum hugsjónum og einhug um velferð þjóðarinnar. Reynslan sýnir okkur að þegar áhugamál allra þingmanna fara saman er fátt sem stöðvar þá. Grettistökum er lyft – jafnvel á einni kvöldstund. Skemmst er líklega að minnast þess þegar eftirlaunafrumvarp þingmanna, ráðherra ofl. var lagt fyrir þingið og afgreitt með slíkum hraða að þeir sem það snerti gátu farið heim sama kvöldið og farið að hlakka til elliáranna. Svona á að vinna. Nú er komið að eldri borgurum og öryrkjum. Nokkrar vikur eru enn til þingslita og auðvelt að framlengja ef þarf. Í stað þess að draga nauðsynlegar ákvarðanir og lagasetningar fram á næsta þing er sjálfsagt að drífa málið í gegn úr því að nú einhugur er um það. Það er bara ekki eftir neinu að bíða. Núverandi þingmenn mundu líka seint fyrirgefa sjálfum sér ef þeir slægju á frest nauðsynjamáli sem slík eining er um ef það drægjist síðan í höndum annarra á næsta þingi þar sem etv. ríkti ekki sami skilningur og einhugur. Aldraðir og öryrkjar hafa heldur ekki hugsað sér að bíða í ár eða lengur eftir réttlætinu, þ.e. lausn sinna mála. Þessi grein var birt í Mbl. 5. mars, 2007