Gunnþór Guðmundsson, rithöfundur og fyrrum bóndi, fjallar um þjóðmál.
NÚ ERU aðeins nokkrir mánuðir þar til þjóðin gengur til kosninga. Það virðist liggja í loftinu, að nú standi þjóðin á mjög örlagaríkum tímamótum.
Lýðræði og friður hefir verið Íslendingum í blóð borið og þjóðin hefir aldrei haft eigin her. En lýðræðið er vandmeðfarið, og ég veit ekki hvort nokkur einræðisherra hefir viðurkennt það að þjóð hans búi við einræði. Þó að við játum því að við búum við lýðræði, þá virðist þó víða pottur brotinn í þeim efnum. Valdamenn hafa tekið afdrifaríkar ákvarðanir án þess að spyrja þing eða þjóð. Þar hafa þeir farið alvarlega út af sporinu.
Hitt hefir svo líklega viðgengist hér alla tíð í stjórnmálum, að naumur meirihluti fer öllu sínu fram án þess að taka nokkurt tillit til stjórnarandstæðinga, sem er kannski helmingur þjóðarinnar og stundum meira en það. Stjórnarherrarnir þurfa að hugleiða það, að þeir eru ekki bara að stjórna fyrir sína kjósendur heldur fyrir alla þjóðina. Þetta mætti nú eflaust færa í betra horf með meiri tillitssemi og minna yfirlæti. Þetta þarf næsta ríkisstjórn að hafa í huga, hvort sem það verður hægri eða vinstristjórn. Annars er helmingur þjóðarinnar alltaf í einhverskonar herfjötrum valdhafanna. Taumlaus fjáraustur og allskonar baktjaldamakk í sambandi við kosningabaráttu eru úr hófi fram og er helst til þess fallinn að brengla lýðræðishugsjónina. \"
Ég get svo ekki látið hjá líða, að minnast á það sem nú brennur heitast á þjóð vorri; stóriðjan. Þar er mikið glæfraspil í gangi og verður aldrei við það unað af íslenskri þjóð að gera Ísland að einskonar Jamaíka. Fyrir utan loftmengunina og landspjöllin, þá hlaðast upp baneitraðir ruslahaugar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Og enn er ótalið að þetta getur kostað okkur að Ísland verði ekki lengur sjálfstæð þjóð. Þegar við erum orðin háð stóriðjufurstunum þá eiga þeir hægt með að kúga okkur, þeir hóta að loka ef þeir fá ekki að stækka og þetta hefir þegar gerst hér hjá einu álveri og getur orðið stórhættulegur vítahringur. Þannig getum við orðið ánauðugir þrælar og Ísland verður ekki lengur gott land, fagurt land, heldur ánauðug þjóð í eiturbrasi álkónganna. Enginn Íslendingur vill slíka framtíð.