Kæra Guðrún,

Ég heyrði í þér í morgunspjalli Arnþrúðar á Útvarp Sögu í morgun – þriðjudag. Ég þekki þig ekki, veit ekki einu sinni föðurnafnið þitt. Það er hinsvegar ekki aðalmálið í dag. Þú sagðist hafa tekið út sparnað að upphæð um 800.000 krónur en þegar skattar, bótaskerðingar og aðrir frádrættir höfðu komið til framkvæmda hélstu eftir um 25.000 krónum. Þetta er náttúrulega með slíkum eindæmum að ég var hissa hvernig þú hélst stillingu þinni í viðtalinu. Sjálfsagt eru til einhverjar “óeðlilegar” skýringar á þessu. Það breytir ekki því að þetta hlýtur að hafa verið “kjafshögg” fyrir þig og fjölskyldu þína. Venjulegt fólk hefur ekki efni á að tapa mánaðarlaunum ráðherra á einu bretti.

 

Þú sagðir réttilega, Guðrún,

að fyrirkomulag og reglur um bætur, skattlagningu, bótamissi og tekjutengingar væru óviðunandi – eins og þitt dæmi sannar. Það sama segja þúsundir eldri borgara sem verða fyrir því að njörvast niður við fátækramörk, því ef það vinnur fara þær tekjur að mestu til baka í formi bótamissis og skatta. Svipað á við um öryrkja.

 

Þegar svona er komið er enginn hvati til að fara út að vinna, þó ekki væri nema hlutastarf. Margir þeir sem þannig taka ekki þátt í þjóðfélaginu leggjast fyrr í kör, tapa sjálfsvirðingu sinni og verða þunglyndir og hrakar líkamlega. Þá þurfa þeir á dýrri hjúkrunarvist að halda og enn skerðast ellilaunin. En það er bara brot af sögunni. Hjúkrunapláss eru svo fá að fólk þarf að bíða heima, oft við lélegar aðstæður, það verður byrði á ættingjum sínum og glatar reisn sinni. Biðlistar lengjast og þar deyr fólk án þess að hafa komist í mannsæmandi hjúkrunarvist. Nýlegar tölur sögðu að þannig hefði farið fyrir 42 sjúklingum.

 

Guðrún, mín skoðun er sú að fólk eigi að geta hlakkað til að verða 67 ára gamalt. Þá hefur það skilað sínu ævistarfi og á að vera “stikkfrí”. Það á að hafa rúm skattleysismörk, td. kr. 140.000, óháð launum maka. Laun eiga ekki að skerða ellilífeyri, hann kemur úr sjóðum sem við öll höfum borgað í. Lífeyrissjóðsgreiðslur gefa ríkinu heldur engan rétt til að draga úr almannabótum. Sjóðirnir eru einkamál vinnuveitenda og launþega – hluti af kjarasamningi. Fólk á líka að geta treyst því að góð heimaþjónusta og síðan hjúkrunarrými séu til reiðu. Að um það verði annast af fullri reisn og fagmennsku þegar heilsan fer að gefa sig - eins og hún gerir hjá okkur öllum fyrr eða síðar.

 

Svo er annað Guðrún.

Það er eins og ráðamönnum sé fyrirmunað að skilja að með því að klípa “smápeninga” af öldruðum með skattareglum og bótaskerðingum halda þeir fólki heima við hungurmörk svo það bugast fyrr en ef það hefði haft tækifæri til að vinna og halda sér við andlega og líkamlega. Þeir peningar sem ríkið nær þannig glatast margfalt aftur því fólk þarf miklu fyrr á dýrri þjónustu að halda. Aurarnir eru sparaðir – krónunum kastað. Hér eru slegnar marga flugur í einu höggi: Fólki er haldið heima, það svipt sjálfsvirðingu sinni og lífsgleði, stórfé eytt umfram þarfir í vistheimili – og samt ekki nóg gert. Og svo leggur allt þetta kerfi oft ósanngjarnar byrðar á aðstandendur. Segja má að hér hafi bæði tekist að sökkva skipinu og stranda því !

 

Þú spyrð Guðrún

hvaða stjórnmálaflokki, hvaða mönnum, megi treysta til að skera þetta kerfi upp, gera það mannvænt og réttlátt. Ég skil vonleysi þitt, því að í þessum málaflokki hafa þeir allir haft tækifæri og allir brugðist – öllum nema sjálfum sér.

 

Ég vil því ég benda þér á nýjan kost, byggðan á nýjum forsendum: Framboð aldraðra og öryrkja – framboð.is. Þar er ekki á ferðinni fólk sem langar á þing og lofar hverju sem er til að komast þangað. Þar er fólk, eins og þú, aldraðir, öryrkjar og aðstandendur þeirra. Fólk sem er búið að fá nóg. Fólk sem eftir margra ára bið hefur komist að þeirri niðurstöðu að fátt muni breytast nema það fari sjálft í framboð, inn á þing og breyti reglunum. Á þessum tveim tegundum frambjóðenda er reginmunur. Aldraðir og öryrkjar um allt land munu velja sér frambjóðendur sem þekktir eru fyrir áhuga á málefnum þeirra. Margir frambjóðendur munu væntanlega sjálfir vera fatlaðir eða komnir á efri ár. Aðrir verða etv. aðstandendur og umönnunaraðilar ss. læknar og hjúkrunarfólk sem hefur þekkingu og sér vandamálin daglega.

 

Þetta þýðir ekki, Guðrún, að þingmenn eldri borgara og öryrkja muni ekki hafa vit eða skoðun á öðrum þjóðfélagsmálum. Þvert á móti. Þetta fólk hefur ekki alið aldur sinn á ríkisjötunni; það mun verða lífsreynt, þroskað og jarðbundið.

 

Það hefur td. glatt mig sérstaklega hve sterkar taugar þeir sem ég hef talað við, eiga til landsins okkar og hvað verndun þess og virðing fyrir því skiptir það miklu máli. Það mun sjást vel í stefnuskránni sem er í smíðum. Þakka þér fyrir að segja frá reynslu þinni á Útvarp Sögu. Ég vona að þú sért nokkru fróðari – og bjartsýnni – eftir þennan lestur og skoðun á www.framboð.is

 

Kveðja,

Baldur Ágústsson

www.landsmenn.is

 

Höf. er fv. forstj. og frambj. í forsetakosn. 2004