Fljótt á litið blasir etv. ekki við hvernig hátt lyfjaverð á Íslandi tengist einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Þeir sem komnir eru á miðjan aldur muna þó líklega eftir Lyfjaverzlun Ríkisins. Lyfjaverslunin var í eigu þjóðarinnar í tæp 50 ár. Hún flutti inn lyf og framleiddi bæði töflulyf og stungulyf og seldi sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum – á kostnaðarverði. Skv. lögum og reglum var hún til þjónustu við þjóðina og leyfðist ekki að að hagnast á framleiðslunni.

Tilvera hennar setti ríkið í þá viðskiptalegu aðstöðu að vera ekki háð innflytjendum og framleiðendum á frjálsum markaði. Lyfjaversluninni var breytt í hlutafélag 1990 og síðan seld lyfjafyrirtækinu Delta, því “ríkið á ekki að vera í samkeppni við einkaframtakið” skv. rétttrúnaðarstefnu valdamanna í einkavæðingarmálum. Allt tal gegn þessu, eins og annarri einkavæðingu, var kveðið í kútinn. Allar viðvaranir um langtímaáhrif voru látnar sem vind um eyru þjóta – enda hugsa alltof margir stjórnmálamenn í kjörtímabilum.

 

Í Fréttablaðinu þ. 10. þ.m. er vitnað í embætti landlæknis og í heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, og eftir báðum haft að lyfjaverð á Íslandi sé óheyrilega hátt, td. margfalt á við það sem er td. í Danmörku. Svo mikill er þessi munur að það væri ódýrara fyrir ríkissjóð að gefa sjúklingum farmiða nokkrum sinnum á ári og láta þá sækja lyf sín þangað. Svo vitnað sé í orð ráðherrans: “Það er einhver pottur brotinn”. Það þarf ekki að leita langt að þeim potti svo áfram sé notað tungutak ráðherrans. Málið er einfalt: Við áttum verksmiðju sem tryggði okkur lyf á eðlilegu verði. Ríkistjórn þess tíma seldi hana lyfjafyrirtæki sem lokaði henni og hefur nú, ásamt nokkrum öðrum slíkum fyrirtækjum, kverkatak á heilbrigðisstofnunum, ríkissjóði og sjúklingum hvað snertir verðlag á lyfjum. Þetta gat hver sem vildi séð fyrir.

 

Aðrar einkavæðingar síðan þá eiga því miður eftir að verða okkur dýrkeyptar með sama hætti. Við erum í raun alltof lítil þjóð til að gefa frjálshyggjunni lausan tauminn. Allt tal um samkeppni sem skili betri verðum til neytandans reynist því miður oftast tálsýn eins og sést td. á bensínverði stóru félaganna og lyfjaverslunum sem nú eru flestar eða allar í eigu örfárra fjárfesta.

 

Norrænt samstarf

Ég sá fyrir nokkrum árum umfjöllun í bresku blaði um samband Norðurlandaþjóða. Blaðið líkti því við ástir gamals fólks á elliheimili: Ósköp ljúft og fallegt – en bæri sjaldan ávöxt. - Þessu getum við breytt, aðeins ef við höfum kjark til og berum hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Við eigum að endurreisa Lyfjaverslun Ríkisins. Framleiða, flytja lyf inn beint og aðeins versla við innflytjendur sem geta boðið betra verð en við fáum annarsstaðar. Jafnframt eigum við að hafa forgöngu um stofnun innkaupasambands allra Norðurlanda á þessu sviði. Bjóða út framleiðslu á lyfjum fyrir allar þjóðirnar – með áletrun og leiðbeiningum á öllum tungumálunum. Í því felst öryggi þar sem við getum þá flutt lyf á milli þjóðanna ef einhversstaðar kemur upp skyndileg þörf. Magnið ætti að tryggja bestu verð og þannig koma öllum þjóðunum til góða. Um leið er komið tækifæri til að bregðast við þeirri fákeppni sem hér ríkir að sögn landlæknis. Það er kominn tími til að sjá meiri árangur af samstarfi Norðurlanda en ferðalög, ræður og bókmenntaverðlaun.

 

Í dag eyðir ríkisjóður um sjö milljörðum króna árlega í niðurgreiðslur á lyfjakostnaði.

Auðvitað þarf að greiða niður lyfjaverð. Gallinn er bara sá að um leið og ríkið er orðið háð einkafyrirtækjum um innkaup þá hækkar verðið. Fyrirtækin eru orðnir milliliðir sem þurfa að standa undir kostnaði - og hagnast.

Hvenær ætla valdamenn skilja að einkavæðing á öllum sviðum bætir millilið í innkaupa- og sölu-ferlið. Millilið sem óhjákvæmilega veldur verðhækkun. Markmið hvers slíks milliliðar er að afla eigendum sínum sem mests hagnaðar. Það er ekkert dularfullt við það, ekki neitt sem á að koma neinum á óvart. Þetta er einfaldlega eðli og tilgangur fyrirtækja. Nú mundu margir segja: Auðvitað vita stjórnmálamenn þetta. Þá situr eftir spurningin: Hversvegna er þá einkavætt – er eftir allt eitthvað til í orðinu “einkavinavæðing ?

Trúnaðarmönnum okkar á valdastólum hefði verið sæmra að einbeita sér að því að reka sameignir þjóðarinnar með ráðdeild og sóma en að selja þær og láta þjóðina borga brúsann í formi hækkandi verðs og hækkandi skatta. Þetta á nefnilega ekki aðeins við um lyfin. Bankarnir eru farnir og hagnast vel. Síminn sömuleiðis. Landsvirkjun er komin á blað og Ríkisútvarpið líka. Hlutafélagaleikurinn gerir það auðveldara að selja þessar stofnanir og svipta starfsmenn um leið rétti sínum sem opinberir starfsmenn.

 

Með sama áframhaldi mun það líklega bera upp á sama tíma að allar ríkiseignir sem geta skilað arði verða farnar, þorri þjóðarinnar orðinn leiguliðar í “eigin” landi og þeir valdamenn sem við kusum til að gæta hagsmuna okkar verða hættir störfum og komnir á margföld eftirlaun.

 

Baldur Ágústsson

Fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningum 2004

baldur@landsmenn.is