Jólin nálgast með ljósadýrð, gjöfum og góðum mat. Þessi hátíð ljóssins minnir okkur á fæðingu frelsarans og boðskap hans. Jólin eru hátíð gleði, vonar og kærleika. Því er sárt til þess að vita að meðal okkar í velferðarþjóðfélaginu eru margir sem, vegna fátæktar, geta ekki veitt sér og sínum það við flest teljum sjálfsagt til hátíðahalds. Einstaklingar og fjölskyldur sem ná ekki endum saman, kvíða hverjum degi og eiga dapurleg jól.

 

Nýlega voru stofnuð “Samtök um velferð”. Stofnandi þeirra, Haraldur P. Sigurðsson ( harpsig@yahoo.com ), ritaði grein í Mbl. þann 22. október sl. Grein hans má lesa í heild í greinasafni á www.landsmenn.is . Haraldur kemst m.a. svo að orði : “

 

Það er erfitt fyrir fólk að lifa í fátækt í landi þar sem flestir virðast lifa í allsnægtum. Fólk sem lendir í fátækragildru af ýmsum ástæðum er útilokað frá venjulegu lífi og jafnvel brotin á því mannréttindi. Sumir sérfræðingar halda því fram að hægt sé að vinna sig útúr fátækt ef vilji er fyrir hendi, jafnvel halda því fram að fátækt fólk eigi það skilið að standa í basli, en málið er það að lenda í fátækt er mjög auðvelt. Fullfrískt fólk í dag getur orðið öryrkjar á morgun af ýmsum ástæðum og hvernig á þá að standa í skilum með öll lán og skuldbindingar á rúmum 80.ooo kr frá tryggingastofnun. Því miður fer þessi hópur vaxandi sem hvorki getur fætt sig né klætt í velferðaþjóðfélaginu. . .

 

. . . Það ætti ekki að líðast hér í velferðaríkinu að fólk þurfi að vera rekið grátandi út frá félagsmálastofnun og þurfa að beygja sig í duftið til að þiggja einhverja ölmusu frá góðgerðastofnunum.”

 

Þetta eru sterk orð og lýsa ástandi sem ekkert okkar vill búa við. Í allri þeirri velmegun sem hér ríkir er þetta blettur á þjóðfélaginu. Það á ekkert okkar að þurfa að lifa styrkjum neðan við hungurmörk og þola þá líðan og niðurlægingu sem slíku fylgir.

 

Stjórnvöld hljóta að huga að lífskjörum borgaranna og bregðast við vaxandi fátækt þannig að félags- og velferðar-kerfi okkar standi undir nafni. Þangað til skulum við, sem erum aflögufær, gefa eftir getu til góðgerðastofnana eins og Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar Íslands og þannig hjálpa samborgurum okkar að eiga gleðileg jól.

 

Baldur Ágústsson

Höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosn. 2004

baldur@landsmenn.is