Leifur Jónsson, læknir skrifar:

 

TALIÐ er, að hér á landi dvelji fjöldi útlendinga án dvalar- eða atvinnuleyfa.

 

Þeir eru margir hverjir sagðir búa við slæman kost. Af þessu hefur verkalýðshreyfingin að vonum þungar áhyggjur.

 

Íslenzk stjórnvöld koma sem af fjöllum, skilja ekki hvernig slíkt má vera. Að svo sögðu má spyrja hvort nokkuð mæli gegn því, að hér séu og fulltrúar alþjóðlegra glæpasamtaka og það í leyfisleysi og banni? Nær daglegar handtökur burðardýra, erlendra sem innlendra, benda til milljarða umsvifa. Slíkar uppákomur ættu þó engum að koma á óvart.

 

Hinn 25/3 2001 skrifuðu íslenzk stjórnvöld undir Schengen-samkomulagið. Það samkomulag var gert milli ESB-ríkjanna innbyrðis auk Íslands og Noregs.

 

Til sögunnar er nefndur Gerhard Sobothil og titlaður "sendiherra er stýrir fastanefnd framkvæmdastjórnar ESB gagnvart Noregi og Íslandi".

 

Þennan dag, það er 25/3 2001, skrifaði nefndur Sobothil í Morgunblaðið m.a. eftirfarandi um innihald Schengen-samkomulagsins og var þá búinn að nefna frjálst flæði vöru, þjónustu og fjármagns. "Eftirlit með ferðum fólks yfir landamæri aðildarríkja Schengen er lagt niður og fólk getur ferðast yfir þau án þess að sýna vegabréf."

 

Hver eru þá nánar tiltekið þessi Schengen-ríki, sem elska ferðafrelsið svo ákaft? Það eru ríkin á meginlandi Vestur-Evrópu, en auk þeirra eyríkin Bretland, Írland og Ísland. Schengen-löndin á meginlandinu fóru létt með undirskriftina, enda löngu búin að gefast upp á landamæravörzlu. Þau vissu sem var, að skítseiði með óhreint mjöl í pokanum fór þar hvort eð var yfir landamærin að vild.

 

Þetta átti við um meginlandið, en hvað gerðu þá Bretar og Írar? Lönd þeirra höfðu náttúruleg landamæri, þau voru umgirt sjó, sem um aldir hefur varið þau gegn alls kyns óværu. Þessar tvær þjóðir vildu eftir fremsta megni nota sér þessi landamæri og fylgjast með því hverjir kæmu og hverjir færu. Þeir skrifuðu ekki undir vegabréfaleysisákvæði Schengen-samningsins, en eru að öðru leyti fullgildir meðlimir.

 

Nú er tímabært að víkja sögunni til Íslands, eyjarinnar í miðju Atlantshafi. Hvað gerðu samningamenn vorir í stöðunni? Notfærðu þeir sér náttúruleg landamæri? Kröfðust þeir þess að fá að halda uppi vegabréfaeftirliti? Nei, þeir skrifuðu undir samninginn eins og hann lagði sig, og voru sennilega öðru fremur með hugann við dásemdir hins frjálsa flæðis fjármagns yfir landamærin, líklega þó aðallega út yfir landamærin, til dæmis kvótafé, svo dæmi sé tekið.

 

Ljóst þykir, að vegabréf hafi aldrei þvælzt fyrir heiðarlegu fólki. Hinir, sem eiga erfitt með að fara að lögum, eru hins vegar guðslifandi fegnir að geta valsað um landamæri og það án vegabréfs. Hvernig væri nú, að við hérna í miðju Atlantshafinu, tækjum aftur upp vegabréfaeftirlit með öllum sem hingað koma og héðan fara?

 

Ljóst er, að til Íslands koma menn ekki nema sjóleiðis eða loftleiðis.

 

Eftirlit er því vel framkvæmanlegt, sé vilji fyrir hendi. Þá ættum við ekki að þurfa að vakna upp við þann ljóta draum, að landið sé skyndilega þéttsetið fólki, góðu og illu, sem samkvæmt bókhaldsleysinu hefur aldrei hingað komið og því síður að það sé hér. Hvað er þá til ráða?

 

Því ekki að fylgja fordæmi hinna eyþjóðanna og taka upp strangt vegabréfaeftirlit?

 

Ekki væri úr vegi að verkalýðsforystan hefði forgöngu um þau þjóðþrif, ekki einasta vegna þrælkunar verkalýðs heldur og vegna annarrar myrkrastarfsemi, sem hér getur þrifizt vegna þess, eins og Sobothil sagði "kjarninn í Schengen-samstarfinu er að leggja niður eftirlit með ferðum fólks yfir landamæri þátttökuríkjanna, svo kölluð innri landamæri".

 

Svo mörg voru þau orðin, enda samin fyrir Vestur-Evrópu og ganga út frá því, að hin ytri landamæri gegn austri og suðri séu mannheld.

 

Reynslan sýnir hins vegar að svo er ekki og þar með er hin fagra hugmynd um vegabréfalausa Paradís innan Schengen-svæðisins orðin að hreinni martröð. Mál er því til komið að sýna dulitla sjálfsbjargarviðleitni, notfæra sér hin náttúrulegu landamæri, taka upp vegabréfaeftirlit og koma reglu á hlutina eftir beztu getu.

 

 

 

Leifur Jónsson læknir