Á NÆSTU dögum fara fram tvísýnar þjóðaratkvæðagreiðslur í Frakklandi og Hollandi um drög að stjórnarskrá Evrópusambandsins. Engu skal spáð um úrslit. Drög þessi eru um 480 bls. að lengd í A4-broti en til samanburður má nefna að íslenska stjórnarskráin fyllir fjóra og hálfa blaðsíðu í lagasafninu. Lengdin ein segir kannski ýmislegt um það kerfisbákn sem ESB er orðið. Margt er að finna í þessum stjórnarskrárdrögum sem athyglisvert er frá sjónarhól Íslendinga. Hér skal bent á fjögur atriði:

 

1. Stjórnarskrárdrögin, ef samþykkt verða, eru stórt skref í þá átt að gera ESB að formlegu stórríki.

 

2. Íslendingar fengju við aðild 0,8% þingmannafjöldans.

 

3. Atkvæðavægi smærri ríkja minnkar og dregið er úr áhrifum þeirra með aukinni viðmiðun við íbúafjölda.

 

4. Þriðjungur aðildarríkja fær ekki fulltrúa í framkvæmdastjórn.

 

5. Yfirráð ESB yfir fiskveiðilögsögu aðildarríkja eru sérstaklega staðfest í stjórnarskránni.

 

1.Það eðli ESB að svipta aðildarríkin sjálfstæði sínu og gera þau að eins konar fylkjum í nýju evrópsku stórríki hefur lengi verið hálfgert feimnismál sem ákafir aðildarsinnar í Evrópu hafa sem minnst viljað ræða og lengi gert lítið úr. En sumir eru hreinskilnari en aðrir. Evrópumálaráðherra Þýskalands orðaði það svo 25. febr. sl. í Die Welt: "Stjórnarskrá ESB er fæðingarvottorð Bandaríkja Evrópu." Það er illmögulegt að neita því að ESB er smám saman að fá öll helstu einkenni þjóðríkja. Flest þessara einkenna eru reyndar þegar fyrir hendi en mörg þeirra eru nú útfærð á skýrari hátt í stjórnarskrárdrögunum. Auk þings og ráðherraráðs sem setja lög, æðri lögum aðildarríkja, og framkvæmdastjórn sem samsvarar ríkisstjórn þjóðríkis verður nú kjörinn forseti sem kjósa má tvívegis til tveggja og hálfs árs eða alls til fimm ára. Jafnframt kýs leiðtogaráðið utanríkisráðherra sem stjórna mun utanríkisþjónustu ESB og sendiráðum víðs vegar um heim. Þrengt verður enn frekar að svigrúmi aðildarríkja til að fylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. ESB er því ótvírætt að umskapast í nýtt stórríki þótt áfram muni ýmsir gera sem minnst úr því. En sá feluleikur er á undanhaldi.

 

2.Á þingi ESB eiga skv. stjórnarskrárdrögunum að sitja 750 þingmenn og eru minnstu aðildarríkjunum ætlaðir 6 þingmenn en þær fjölmennustu geta fengið allt að 96. Samkvæmt því fengi Ísland sex þingmenn eða 0,8% þingmannafjöldans ef til aðildar kæmi.

 

3.Í ráðherraráðinu sem er ótvírætt valdameira en þingið verður einn ráðherra frá hverju aðildarríki og geta 15 þeirra myndað meirihluta í flestum málaflokkum en þeir verða að hafa 65% íbúafjöldans á bak við sig. Á fyrri stigum í þróun ESB höfðu einstök ríki neitunarvald í flestum málaflokkum en neitunarvaldið er nú á hröðu undanhaldi og í staðinn verður aukinn meirihluti látinn gilda á æ fleiri sviðum. Aðildarríkin fara með mismunandi mörg atkvæði en stefnt er að því að íbúafjöldinn ráði úrslitum þegar til ágreinings kemur. Hlutfall íbúafjölda Íslands af heildaríbúafjölda ESB er 0,06%. Það liggur í eðli þessa nýja kerfis að vægi smáríkja fer minnkandi og þau fá litlu sem engu áorkað nema í samvinnu við fjölmennustu ríkin. Samskipti aðildarríkja á jafnréttisgrundvelli eru hverfandi þáttur í stofnanakerfi ESB og það kemur varla neinum á óvart.

 

4.Framkvæmdastjórnin verður ekki skipuð fulltrúum allra aðildarríkjanna eins og hingað til hefur verið heldur einungis að tveimur þriðju hlutum og var reyndar þegar stefnt í þessa átt í NICE-sáttmálanum árið 2000. Þegar Norðmenn greiddu atkvæði um aðild að ESB var þó reynt að lokka þá til aðildar með yfirlýsingum um að sjávarútvegsstjórinn í framkvæmdastjórninni yrði framvegis norskur. Sama gerði Samfylkingin hér heima árið 2001 í úttekt sinni sem nefndist Ísland í Evrópu og var undanfari atkvæðagreiðslu í flokknum um hugsanlega aðild. Þar var látið að því liggja að Íslendingar fengju vafalaust að tilnefna sjávarútvegsstjórann. En nú er að því stefnt að á hverju fimmtán ára tímabili líði fimm ár án þess að aðildarríki eigi fulltrúa í framkvæmdastjórninni.

 

5.Fyrir Íslendinga er það sérstaklega athyglisvert að í upptalningu í stjórnarskrárdrögunum á þeim málaflokkum sem heyra alfarið undir löggjafarsvið Evrópusambandsins eru sjávarútvegsmálin sérstaklega tiltekin og er það eini atvinnuvegurinn sem fær þá meðferð. Þar segir að ESB hafi úrslitayfirráð yfir lífríki sjávar við strendur aðildarríkja í samræmi við sameiginlega fiskveiðistefnu. ("The Union shall have exclusive competence to establish competition rules within the internal market, and in the following areas... the conservation of marine biological resources under the common fisheries policy. I-13.") Þetta er reyndar staðfesting á eldri reglum ESB allt frá Rómarsáttmálanum. Ákvæðið felur því ekki í sér efnisbreytingu sem máli skiptir frá lagalegu sjónarmiði en sú áminning sem í því felst að yfirráð ESB yfir fiskveiðilögsögu aðildarríkjanna innan 200 mílna lögsögu er berum orðum staðfest í stjórnarskrárdrögunum sem ein af grundvallarreglum ESB mun hafa verulega pólitíska þýðingu og draga mjög úr líkum á því að undanþága frá meginreglunni verði veitt, ef svo færi að Norðmenn og Íslendingar sæktust síðar eftir aðild.

 

Jafnframt má minna á það sem upplýst var í fyrra af einum þeirra sem sat í stjórnarskrárnefndinni að ekkert aðildarríki hreyfði ágreiningi um þetta atriði, t.d. hvorki Danir né Svíar þótt forystumenn þeirra hafi óspart látið í það skína í seinni tíð að þeir vildu gæta hagsmuna Íslendinga og Norðmanna í þessum efnum. Það er því augljósara en nokkru sinni fyrr að sú von margra íslenskra aðildarsinna að Íslendingar gætu fengið allsherjarundanþágu frá þessari meginreglu varðandi fiskveiðiauðlind okkar undan ströndum landsins er lítið annað en tálsýn. Ýmis voldug sjávarútvegsríki myndu vafalaust beita sér af fullri hörku gegn því að undanþága frá meginreglunni yrði veitt enda myndi það skapa fordæmi sem bryti niður sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna.

 

Að sjálfsögðu stafar andúðin í Frakklandi á löggildingu stjórnarskrárinnar alls ekki af þeim ástæðum sem hér hafa verið nefndar. Þvert á móti geta Frakka glaðst yfir auknu atkvæðavægi stórþjóðanna. Andstaðan stafar hins vegar af megnri óánægju með fjöldamargt sem ekki stendur í stjórnarskránni en varðar þó ESB beint eða óbeint. Í augum margra er Evrópusambandið fjarlægt, lokað og illskiljanlegt kerfisbákn sem veikir lýðræði og eftirlitsvald fólksins og stuðlar að áhugaleysi meðal almennings á stjórnmálum. Jafnframt skynja franskir kjósendur að í evrulöndum ríkir efnahagsleg lægð sem jaðrar við stöðnun. Þessi árin er þar óvenjumikið atvinnuleysi (um 9%) og er því engin furða þótt þeir velti því alvarlega fyrir sér hvort ESB sé á réttri leið með stöðugri útvíkkun sambandsins og miðstýrðri stjórn peningamála sem fylgt hefur upptöku evrunnar.

 

Ragnar Arnalds

 

Höfundur er formaður Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum.