Albert Jensen, trésmíðameistari skrifar:

STUNDUM velti ég því fyrir mér hvernig hver einstaklingurinn á fætur öðrum getur keypt eignir sem tekið hefur þjóðina áratugi að byggja upp með ærnum kostnaði. Og svo hinu, af hverju eignirnar eru seldar þegar erfiðið er farið að skila sér í arði til framtíðar, þjóðinni til farsældar. Um er að ræða arðbærustu eignir og fyrirtæki þjóðarinnar, sem ríkisstjórnin hefur þegar selt og hin sem eftir eru og lagt er ofurkapp á að hún losi sig við. Því spyr ég hvort fulltrúum þjóðarinnar á alþingi sé treystandi og hvort þeir séu aðallega eiginhagsmunapotarar? Eða eru þeir ekki starfinu vaxnir? Vitað er, að enginn bóndi er svo vitlaus, að hann selji eða felli bestu mjólkurkýrnar sínar. Af hverju var ekki látið nægja að selja einstaklingi Landsbankann á gjafverði? Því þurfti að gefa fjölda þjóðargersema með honum? Getur verið, að ráðherrar sem þannig hlunnfæra þjóð sína, haldi virðingu hennar? Hverjum getur þjóðin treyst þegar fólkið sem hún hefur kosið til að annast hagsmuni sína, kemur aftan að henni? Nú er R-listinn að verða uppþornaður embættismannaflokkur, þar sem fólk getur vart fótað sig fyrir misvísandi reglugerðafargani. Þar er krónunni kastað en aurinn hirtur eins og sést með fyrirhugaðri sölu fornminja kjallarans Aðalstræti 16. Síðan skal leigja hann af kaupendum næstu 20 árin og tapa þar 100 milljónum án þess að vita hvað þá tekur við. R-listinn gengur eins hart að öldruðu fólki og fötluðu og honum er frekast unnt. Í stað þess að lækka þjónustugjöldin, eða fella þau niður, hafa þau stórhækkað. Um leið og ferðaþjónusta fatlaðra er látin kaupa verri bíla, eru gjöldin hækkuð um helming. Borgin kaupir frekar möppur og annað skrifstofudót af útlendingum en við Múlalund, sem er verndaður vinnustaður. Í því sést hugur R-listans í hnotskurn og greinilegt að hann hefur fjarlægst það manneskjulega. Hann forgangsraðar rangt og kann hvorugt að fara með, peninga og völd. Hvernig getur þjóðin snúið vörn í sókn, ef valdið er í óvitahöndum? Vitrir og vinsamlegir valdhafar mundu ekki leggja náttúruperlur landsins í auðn og flækja þjóð sína í erlenda skuldafjötra. Þeir mundu ekki gefa auðlindir hennar og auka misrétti og ójöfnuð. Þeir væru ekki stöðugt að hygla sjálfum sér á kostnað þjóðarinnar. Þeir mundu ekki leggja drög að eyðingu landsbyggðar, eins og nú er gert. Þeir mundu ekki leyfa erlendu stórfyrirtæki að komast upp með langtíma svik og pretti gagnvart þjóð sinni. Góðir valdhafar mundu aldrei framar selja erlendum auðjöfrum rafmagn á gjafvirði til að koma upp og reka enn fleiri eiturspúandi stóriðjur. En það gerist á sama tíma og náttúruöflin eru farin að láta á sjá og ráða ekki lengur við að vera eitur- og sorpeyðingarstöð mannkyns. Slæmir valdhafar loka augunum fyrir því sem er að gerast í náttúrunni og láta sér á sama standa þó álitið sé að eftir 10 til 20 ár verði ekki aftur snúið. Afleiðingar rangrar stjórnunar munu ekki síður bitna á þeim, sem með breytingum hafa gert Landsbankann að óaðgengilegu tölvutæki sem kostar almenning tíma og peninga að ná sambandi við. Gróðahyggjan, sem nú er kölluð hagræðing, er að útrýma manneskjulegum viðskiptaháttum. Líður auðjöfrunum betur þannig?

 

ALBERT JENSEN TRÉSMÍÐAMEISTARI

Sléttuvegi 3, Reykjavík.

 

Birt í Mbl. 30. 3. 2005

 

BIRT HÉR MEÐ GÓÐFÚSLEGU LEYFI HÖFUNDAR