Baldur Ágústsson skrifar um íslenska þjóð: "Við höfum sannað gildi okkar og þurfum ekki að reyna að líkjast eða samlagast öðrum þjóðum."

 

Í DAG fögnum við 60 ára fullveldi Íslands og íslenskrar þjóðar. Frjáls þjóð í eigin landi. Þjóð með eigin tungu, langa skráða sögu og það besta á sviði tækni og menningar. Það frelsi og sú velmegun sem við búum við er ekki sjálfgefið eins og við erum minnt á í hverjum fréttatíma þegar okkur er sýnd fátækt, hungur og harðstjórn sem margar þjóðir mega sætta sig við og sjá ekki fyrir endann á.

 

Um leið og við gleðjumst og fögnum er því ástæða að hugsa með þakklæti til genginna kynslóða: Án eljusemi og áræðis þeirra væri líf okkar öðruvísi í dag. Minnumst líka þeirra sem enn eru meðal okkar, margir í hárri elli. Þeirra sem stofnuðu lýðveldið og unnu að uppbyggingu lands og þjóðar. Samgöngur, menntamál, heilsugæsla og tengsl við umheiminn urðu ekki til af sjálfu sér. Kynslóð tekur við af kynslóð. Þannig höfum við iðnvæðst og tæknivæðst svo að nú stöndum við meðal fremstu þjóða í heimi.

 

Við, sem komin erum yfir miðjan aldur og horfum á unga krakka að leik og starfi á tölvum, hugsum til baka til æsku okkar: Til blýants og strokleðurs, leggja og skelja, sem voru okkar "tæki" og leikföng. Lífið var um margt einfaldara, ekki verra, heldur svolítið erfiðara og einfaldara. En við þekktum ekki annað og við vorum hamingjusöm. Síðan höfum við séð meiri breytingar og tæknivæðingu en nokkur kynslóð á undan okkur.

 

Tæknin hefur fært okkur tíma og frelsi. Frelsi til að ferðast, stjórna lífi okkar og til að láta okkur líða betur á ýmsan hátt. En frelsi getur verið vandmeðfarið. Við hvert fótmál eru valkostir sem móta framtíðina - til betri eða verri vegar. Það þarf sterk bein til að þola meðlæti, svo undarlega sem það kann að hljóma. Tölvur og önnur tækni hefur ekki leyst af hólmi heilbrigða skynsemi og þörfina fyrir að velja og hafna. Þörfina fyrir að kunna fótum sínum forráð. Frelsi Íslands fékkst ekki fyrirhafnarlaust og það er ekki sjálfgefið að það standi um alla framtíð. Það veltur á okkur sjálfum.

 

Við Íslendingar erum um margt sérstök þjóð. Við höfum mótast gegnum aldirnar af einangrun, harðbýli og fallegri en óblíðri náttúru. Við höfum lært að bjarga okkur og margsýnt að fátt stöðvar okkur þegar við snúum bökum saman sem ein fjölskylda. Við getum lyft Grettistökum. Við höfum sannað gildi okkar og þurfum ekki að reyna að líkjast eða samlagast öðrum þjóðum. Við erum sérstök og getum verið stolt af því - með fullri virðingu fyrir öðrum þjóðum.

 

Í dag lítum við um öxl, þökkum Guði fyrir landið og gengnum kynslóðum fyrir varðveislu þess og uppbyggingu. Við lítum líka fram á veg sem við viljum sem mestan og bestan fyrir komandi kynslóðir. Í dag gleðjumst við.

 

 

Gleðilega þjóðhátíð ! Baldur Ágústsson