ÞEGAR þetta er skrifað er Alþingi og stór hluti þjóðarinnar í uppnámi vegna svonefnds fjölmiðlafrumvarps.

 

Ríkisstjórnin leggur kapp á að gera frumvarpið að lögum til að koma í veg fyrir að eign og þar með stjórn fjölmiðla færist á of fáar hendur. Stjórnarandstaðan telur að hér sé í raun verið að ráðast gegn einu ákveðnu fyrirtæki og öll hröðun málsins beri vott um einræðistilburði meirihlutans og þá sérstaklega forsætisráðherra sjálfs. Hér skal ekki tekin afstaða til þess, en á það minnt að "sjaldan veldur einn þá tveir deila".

 

Að afgreiðslu Alþingis lokinni er það hlutverk forseta, eða handhafa forsetavalds, að staðfesta lögin - ef svo fer í þinginu - eða synja staðfestingar. Synji forseti um staðfestingu kemur hann höggi á pólitíska andstæðinga sína en gengur um leið þvert á vilja meirihluta Alþingis sem gæti endað í stjórnarkreppu. Staðfesti hann hins vegar lögin sniðgengur hann áskoranir fjölda kjósenda og vegur óbeint að þeim sem sagt er að hafi stutt hann dyggilega í kosningunum 1996, fyrirtækinu Norðurljósum og forsvarsmönnum þess. Þetta er erfið staða.

 

Til að gera illt verra hafa aðrir atburðir flækt málið og vakið ýmsar spurningar. Forseti ákvað að fara ekki í brúðkaup í dönsku konungsfjölskyldunni, sem þó óumdeilanlega telst til verka hans sem fulltrúa íslensku þjóðarinnar. Ástæðan var sögð sú að hann þyrfti að vera á Íslandi vegna mikilvægra mála í þinginu. Ljóst er að hér er um fjölmiðlafrumvarpið að ræða. Reynt er að "matreiða" þessa ákvörðun fyrir þjóðina sem nauðsynlega og ábyrgðarfulla af hendi forseta. En hér er fleira á ferðinni.

 

Auk þess að móðga Dani og varpa skömm á Íslendinga sem þar búa í þúsundatali, er forsetinn að segja tvennt. Í fyrsta lagi að hann treysti ekki handhöfum forsetavalds, sem er alvarlegt mál, ekki síst í ljósi tíðrar fjarveru hans frá landinu. Í öðru lagi er hann að senda Alþingi skilaboð: "Ég verð hér og gríp í taumana ef fjölmiðlafrumvarpið hlýtur ekki þá afgreiðslu sem mér er þóknanleg".

 

Þetta er óþolandi fyrir Alþingi og raunar alla þjóðina. Það er eðlilegt að forseti hafi málskotsréttinn þegar þingið hefur afgreitt mál, en að sveifla honum eins og sverði yfir höfðum alþingismanna, meðan þeir eru að vinna sína vinnu á þingræðislegan hátt, er óþolandi. Það er gróf tilraun til að fjarstýra Alþingi frá Bessastöðum. Hér kristallast það enn að forseti þarf að vera frjáls. Frjáls að því að fylgja samvisku sinni með hagsmuni þjóðarinnar eina að leiðarljósi. Engum háður pólitískt eða fjárhagslega. Hann má hvorki eiga harma að hefna né greiða að gjalda. Því miður er núverandi forseti ekki frjáls maður.

 

 

Baldur Ágústsson